Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Mér var að berast það að koldíoxíðstraumur er skilgreindur í 13. tölulið 2. gr. reglugerðar um geymslu koldíoxíðs en ég veit ekki hvort hv. þingmaður telur mikilvægt að skerpa á því. Hins vegar það sem hv. þingmaður er að spyrja um — og allt tengist þetta þótt það kannski tengist ekki þessu frumvarpi — en hv. þingmaður er hér að velta upp hlutum sem snúa að loftslagsbókhaldinu sem hv. þingmaður bendir réttilega á að hefur ekki náð fullkomnun, enda var það þannig að þegar þjóðir heims fóru í þessa vegferð þá kom enginn leiðarvísir um hluti eins og það. Það er enginn vafi í mínum huga að við eigum eftir að þróa loftslagsbókhaldið þó að það sé besta tækið sem við höfum núna. Það er hins vegar margt að varast í því. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af tvítalningu. Ef við myndum ræða þau mál þá má alveg segja það eins og er að það er margt sem segir manni — ég held að það megi alveg bæta loftslagsbókhaldið, ekki bara yfir landamæri heldur bara almennt. Þetta er vegferð sem er nýhafin. Ég hef nú haft augun á því og er að setja af stað vinnu við að skoða líka sérstaklega að við stöndum ekki í þeirri stöðu að það sé verið að gera fullt af loftslagsverkefnum hér og það komi bara inn í bókhald annarra ríkja. Ef það er ákvörðun íslenskra stjórnvalda að leyfa einhver loftslagsverkefni hér, sama hver þau eru, þá þarf það að vera upplýst ákvörðun og það verður að vera eitthvað sem Ísland ber úr býtum hvað það varðar. (Forseti hringir.) Þetta er í hraðri þróun og af mörgu að taka og ég fagna áhuga hv. þingmanns og spurningum hans hvað þessi mál varðar en við náum ekki að klára að ræða þau undir þessu máli.