154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Þessi ríkisstjórn stendur frammi fyrir ákalli sem hún getur ekki lengur hunsað eða skotið á frest. Skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur rifið grímuna af alvarlegu stefnuleysi og skorti á skýrri forystu í baráttunni gegn ópíóíðafíkn og vímuefnavandanum almennt. Það er ekki bara vandamál, það er neyðarástand sem krefst aðgerða strax. Hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin öll eru meðvituð um ástandið og hafa verið lengi, en samt sem áður svífum við um í tómarúmi án stefnu, án áætlunar og það sem verra er, án sýnilegrar ábyrgðar. Hversu lengi ætlum við að umbera þessa vanrækslu? Hversu mörg líf ætlum við að horfa upp á kveðja þennan heim á meðan hver starfshópurinn á fætur öðrum stritar við að finna upp hjólið? Á bak við tölur og tæknilegt orðalag eru raunverulegar manneskjur sem þjást. Það er ekki hægt að líta á þennan ómannúðlega skort á aðgerðum sem viðunandi ástand, eins og virðist hafa verið. Það er fyrir löngu kominn tími til að grípa til róttækra aðgerða. Skortur á fjármögnun, skortur á stefnu, skortur á heildstæðri nálgun; þetta eru ekki aðeins mistök, þetta er brestur í samfélagi okkar sem sýnir djúpstætt skilningsleysi og skort á samkennd.

Forseti. Þetta snýst ekki aðeins um pólitík. Þetta snýst um mannúð, samkennd og skyldu okkar til að standa með þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Við getum ekki látið einn dag líða í viðbót án þess að hefjast handa. Við höfum valið, aðgerðaleysi eða aðgerðir. Það er komið nóg. Tími tilgerðar og afsakana er liðinn og ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Ríkisstjórnin verður að bregðast við núna.