154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega óskiljanlegt hvernig fatlað fólk situr allt eftir. Það sem er óskiljanlegt við þessa framkvæmdaáætlun er að samkvæmt lögum á að hafa hana á auðlesnu máli þannig að þeir sem hún varðar geti lesið hana og gert athugasemdir. Þetta var ekki gert. Það furðulega við það er að þegar ég fór að leita að þessu, vegna þess að það kom fram í umræðunum hérna í gær að þetta væri þarna inni — ég fann það ekki. Fatlaður einstaklingur sem benti mér á þetta fann það ekki. Ég tel að þetta sé lögbrot, að þarna sé verið að brjóta lög og það kom vel fram í umræðunni hér í gær að þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Ef við hefðum verið búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks, ef við værum búin að lögfesta viðaukann um málefni fatlaðs fólks þá værum við ekki í þessari stöðu. Þá væri ekki hægt að gera þetta. Spáið í það. Það væri ekki hægt að brjóta lög á fötluðu fólki.