154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að segjast eins og er að okkur hefur ekki gengið neitt sérlega vel að byggja upp traust eftir fjármálahrunið fyrir einum og hálfum áratug síðan. Margt gott hefur þó verið gert. Það hefur verið skerpt á regluverki og gagnsæi aukið, þó aðallega í gegnum EES-tilskipanir. Samt gerast mistökin ítrekað og kostnaður af slíkum mistökum getur verið býsna mikill. Það er rétt að hafa í huga að við erum hér á örmarkaði. Hér ríkir fákeppni á mörgum sviðum og það liggur fyrir að erlendir aðilar hafa engan áhuga á því að reyna að útvíkka starfsemi sína og koma hingað meðan krónan er gjaldmiðillinn sem við notumst við. Þeim mun mikilvægara er að við setjum ekki bara leikreglur sem vernda eigendur og viðskiptavini, heimili og fyrirtæki heldur að við tryggjum að farið sé eftir þessum leikreglum. Þá erum við komin að fréttum vikunnar þar sem við erum enn að reyna að komast til botns í því hvað gerðist, hver átti að upplýsa hvern og hvernig og hver upplýsti ekki þann sem átti að fá upplýsingarnar. Hvar er rofið í upplýsingakeðjunni, virðulegur forseti? Af hverju er þetta rof? Var ekki farið eftir þeim formföstu leiðum sem eiga að verja okkur fyrir svona atvikum? Er það ekki á borði ráðherra að hefja frumkvæðisathugun á einhverju því sem hún er ekki sátt við og hún ber ábyrgð á? Ég velti fyrir mér ef hæstv. utanríkisráðherra kæmist að því að Isavia ætlaði að fara að kaupa einhvern flugvöll, hvort hann hefði ekki skoðun á því og myndi láta þá skoðun í ljós. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ráðherrann sjálfur fer ekki í það að gera frumkvæðisathugun á því máli sem er jafn alvarlegt og hún telur vera.