154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Það sem okkur vantar núna fyrst og fremst eru svör við því hvers vegna almenningur stendur enn og aftur frammi fyrir því að teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum án þess að hæstv. fjármálaráðherra kannist við að bera nokkra ábyrgð á því sem gerist. Blekið er varla þornað á áliti umboðsmanns Alþingis um söluna á Íslandsbanka sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar taldi sig enga ábyrgð bera á. Umboðsmaður var sem kunnugt er ekki sammála því, benti á að það er svo sannarlega hæstv. fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á því að lögum sé fylgt í svona málum. Á endanum hafði hæstv. fjármálaráðherra stólaskipti við þáverandi utanríkisráðherra sem tók við lyklavöldum í fjármálaráðuneytinu í kjölfarið í október síðastliðnum.

Hæstv. ráðherra nefnir hér að þessi umræða um hver gerði hvað og hvenær sé tilraun til að draga umræðuna frá kjarna máls. Er kjarni máls ekki hver ber ábyrgð á því að við stöndum frammi fyrir því að hæstv. ráðherra vilji rifta kauptilboði sem er skuldbindandi á markaði löngu eftir að möguleiki var á að grípa inn í? Þessi framsetning lýsir skilningsleysi á þeim trúnaðarbresti sem komið hefur upp í málum af þessum toga. Það er ekkert lesið í samfélagið og stöðuna hingað til. Hvers konar málflutningur er það að gera lítið úr því að ríkisstjórnin í heild sinni og hæstv. fjármálaráðherra komi af fjöllum þegar kemur að 29 milljarða kr. kaupum á vegum ríkisins? Hér er bara pakkað í vörn, ekki leitað leiða til að bæta verklag og skoða hvað má betur fara. Þess vegna stöndum við hér enn og aftur með ótal spurningar.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við síðustu sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtæki var að leggja niður Bankasýsluna. Haldinn var blaðamannafundur þar sem því var lýst yfir að þar með væri ríkisstjórnin að taka ábyrgð á málinu, með því að leggja framkvæmdaraðilann niður; aðilann sem hafði ekki staðið sig í stykkinu. Tæpum tveimur árum síðar, á sama tíma og ríkisstjórnin leggur nú fram frumvarp um áframhaldandi sölu á Íslandsbanka án aðkomu Bankasýslunnar, væntanlega vegna vantrausts til hennar, berast fréttir af því að Landsbankinn hafi gert bindandi kauptilboð sem hafi verið tekið upp á 29 milljarða kr. í Tryggingamiðstöðina. Stjórn bankans, sem valin er af Bankasýslunni í umboði hæstv. fjármálaráðherra, tekur þessa ákvörðun og hvorki Bankasýslan né hæstv. ráðherra segist hafa vitað neitt um málið.

Forseti. Við þurfum svör við því hver samskipti hæstv. fjármálaráðherra voru við Bankasýsluna frá því að hún tók við embætti í október. Hér virtist reyndar koma fram fyrr í umræðum að þau hafi í raun verið engin þrátt fyrir eftirlitsskyldu hæstv. ráðherra. Við þurfum svör við því hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi ekki fylgst betur með að Bankasýslan væri að sinna störfum sínum í ljósi þess að ríkisstjórn og fyrrum ráðherra lýstu í raun vantrausti í garð Bankasýslunnar á sínum tíma með því að leggja stofnunina niður. Við þurfum svör við því hvernig á því stendur að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki beitt sér fyrir því að eigendastefnu ríkisins í tilviki Landsbanka Íslands hafi verið fylgt og við þurfum svör við því hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra lætur í ljós vanþóknun sína á umræddri aðgerð í hlaðvarpsþætti fyrir mörgum vikum síðan án þess að grípa til þeirra ráðstafana sem lög gera ráð fyrir. (Forseti hringir.) — Hæstv. forseti. Ég ætla að fá að nýta tíma næsta ræðumanns ef það er í lagi.

Nú segir hæstv. ráðherra að það sé óljóst hvort hluthafafund þurfi til til að samþykkja þetta tilboð þegar það liggur alveg fyrir að allir fyrirvarar í þessu máli hafa verið gerðir opinberir eftir því sem ég best veit. Það sem ráðherra ætti hins vegar að vera meðvituð um, og ef hún hefði fylgt þessu betur eftir og Sjálfstæðisflokkurinn undanfarin ár sem flokkurinn hefur rekið Bankasýsluna, er að það hefði verið hægt í gegnum Bankasýslu ríkisins að koma slíkum fyrirvara inn í samþykktir félagsins um að eðlisbreytingu eða mikilsverða hagsmuni í rekstri bankans þyrfti að bera undir hluthafafund. Þá værum við mögulega í annarri stöðu. En það var ekki gert þannig að slíkur fyrirvari er einfaldlega ekki til staðar og ekkert stefnir í slíkan hluthafafund, a.m.k. miðað við opinberar upplýsingar.

Forseti. Hér er enginn að gera athugasemd við það að ráðherra hafi haft skoðun á þessu máli eða á því sem er gert í rekstri bankans eftir á. Það er verið að gera athugasemd í öllu þessu ferli við hvenær þessi skoðun birtist og aðgerðir til að fylgja henni eftir. Við þurfum að fá svör við því af hverju engin formleg samskipti áttu sér stað, að því er virðist, milli ráðherra og Bankasýslunnar og hvers vegna vísað er til þess formlega í bréfi að yfirlýsing hafi átt sér stað um skoðun ráðherra á þessu máli í formi hlaðvarpsþáttar. Tala aðilar hér ekki saman nema í gegnum slíkar skeytasendingar? Við þurfum svör við því, forseti, hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir íslenskan almenning að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafi sofið svona stórkostlega á verðinum í þessu mikilvæga máli sem gæti leitt til skaðabótaskyldu og þar með falið í sér mikinn kostnað fyrir íslenskan almenning ef kaupunum á að rifta. Það er kjarni málsins; sú skaðabótaskylda sem mögulega er að myndast hér.

Forseti. Við höfum reynslu af svona máli hér inni þar sem enginn vilji var til að taka ábyrgð á stöðunni. Allir bentu á einhvern annan. Nú er það svo að það er ekki hægt að leggja sömu stofnunina niður oftar en einu sinni. Hvað ætlar hæstv. ráðherra og þessi ríkisstjórn að gera þá? Um hvað mun næsti blaðamannafundur snúast?