154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má auðvitað deila um það fyrirkomulag sem við erum hér að fjalla um. Ég skil alveg hv. þingmann að gera það að umtalsefni því að það er óneitanlega sérstakt. En þá hlýt ég að rifja það upp að þetta fyrirkomulag er til komið vegna kjarasamninga sjómanna og útgerða. Þá gæti hv. þingmaður spurt, eins og hann gerði hér áðan, út í það að hér sé einhver ríkisstofnun að ákvarða þetta. En þetta fyrirkomulag er komið til til að skapa ákveðið traust á verðlagningunni þannig að hlutur sjómanna sé réttur. Það má spyrja sig hvort það sé eðlilegt fyrirkomulag að ríkið reki stofnun til þess að kjarasamningar gangi upp. En staðreyndin er sú að þetta hefur skapað jafnvægi milli aðila og markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að nútímavæða þessa stofnun þannig að hún hafi aðgengi að þeim opinberu gagnasöfnun sem við erum að safna. Það er reyndar alveg sérstakt umræðuefni og ætti skilið sérstaka umræðu hvernig við erum að samnýta gögn í okkar stofnunum sem öllum er safnað í þágu almannahagsmuna en oft töluverðir eldveggir á milli.

Ég verð líka að segja það, af því að við erum að ræða hér markaðslögmálin, að það er auðvitað bara önnur umræða að ræða hve mikill fiskur fer á markað og hve stór hluti aflans fer á markað. Þessi stofnun fylgist hins vegar með raunverði til að gæta þessa réttlætis milli aðila. Þessi stofnun er ekki að stjórna verðmyndun á fiski heldur er hún eingöngu að tryggja að réttlæti ríki þegar hlutnum er skipt. Eins og ég benti á áðan þá teljum við að við séum á réttri leið með það miðað við þær umsagnir sem bárust um málið.