154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

hafnalög.

830. mál
[17:47]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Í frumvarpinu eru að hluta ákvæði sem birtust í eldra frumvarpi sem mælt var fyrir á 151. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Ákveðið var að skipta efni þessa frumvarps í tvennt, annars vegar það frumvarp sem hér er mælt fyrir, sem hefur að geyma ýmis ákvæði til breytinga á hafnalögum, og hins vegar frumvarp til innleiðingar á EES-reglum sem varð að lögum nr. 31 frá árinu 2023 á 153. löggjafarþingi, þ.e. fyrir jól.

Ákvæði þessa frumvarps sem áður birtust í eldra frumvarpi eru annars vegar ákvæði um rafræna vöktun í höfnum og hins vegar ákvæði um eldisgjald. Ákvæðið um eldisgjald hefur tekið breytingum frá fyrra frumvarpi til að gæta samræmis við önnur gjaldtökuákvæði laganna. Auk þess eru með frumvarpinu lögð til ný ákvæði sem ekki er að finna í eldra frumvarpi. Það eru ákvæði sem snúa að afmörkun hafnarsvæða, flutningi verkefna frá Samgöngustofu til Vegagerðar, flutningi ákvæða úr lögum um Vaktstöð siglinga í hafnalög, kæruheimild vegna gjaldskrárákvarðana, tilkynningarskylda vegna búlkaskipastarfssemi og aðgangsbanni að höfnum.

Fyrst fjalla ég um rafræna vöktun. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lögin sem verður þá 7. gr. a sem heimilar stjórnendum hafna að viðhafa vöktun á hafnarsvæði eða taka myndir með reglulegu millibili í öryggisskyni. Með ákvæðinu er höfnum veitt heimild til að viðhafa slíka rafræna vöktun á hafnarsvæðum og heimild til að miðla upplýsingum til notenda hafna með rafrænum hætti í rauntíma sem og til Vaktstöðvar siglinga, lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Á mörgum hafnarsvæðum er viðhaft myndavélaeftirlit, einkum í því skyni að bátaeigendur geti fylgst með bátum sínum og veðurlagi. Hafa skipstjórnarmenn sem eru á leið til hafnar einnig notað þær upplýsingar til að sjá hvar eru laus pláss við hafnir. Tilgangur þessa ákvæðis er að veita lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem verða til við þessa vöktun. Er rétt að taka fram að sveitarfélög munu þurfa að gera mat á áhrifum þessarar vöktunar á persónuvernd. 4. gr. frumvarpsins veitir loks ráðherra heimild til að mæla nánar fyrir um vinnslu persónuupplýsinga og skilyrði hennar í reglugerð.

Þá ætla ég að fjalla um nýtt ákvæði um eldisgjald. Einn þáttur í starfsemi fiskeldisfyrirtækja er flutningur eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun. Í 17. gr. hafnalaga sem kveður á um gjöld og gjaldtöku hafna samkvæmt gjaldskrá er ekki kveðið sérstaklega á um heimild hafna til að taka gjöld vegna þessa hluta starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Hafa hafnir hingað til byggt gjaldtöku vegna þessarar starfsemi í höfnum á ákvæði um aflagjald, þ.e. e-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna. Þar segir að höfnum sé í gjaldskrá heimilt að innheimta aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Sé gjaldið innheimt skal það vera minnst 1,25% og mest 3% af heildaraflaverðmæti. Í framkvæmd, þegar þessu ákvæði hefur verið beitt, hefur ekki ávallt verið notast við þau viðmið um hlutfall heildaraflaverðmætis sem nefnd eru í ákvæðinu heldur stuðst við lægri prósentutölu. Ágreiningur hefur verið uppi um lögmæti þessarar gjaldtöku. Vísast þar einkum til nýlegs dómsmáls sveitarfélags gegn fiskeldisfyrirtæki sem enn er til meðferðar í dómskerfinu. Að mati ráðuneytisins er þörf á því að leysa úr óvissu er tengist gjaldtöku af eldisfiski. Er því lagt til í frumvarpi þessu að við 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. bætist nýr stafliður um eldisgjald af eldisfiski í sjókvíum, þar með talin eldisseiði. Gjald samkvæmt þessum staflið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka þar sem við á sem og almennan rekstrar- og stjórnunarkostnað. Gjöld samkvæmt þessum staflið skulu greidd af þeim sem rækta eldisfiskinn sem fer um höfn hverju sinni. Hér er um afmarkað gjald að ræða sem nær ekki til annarrar starfsemi fiskeldisfyrirtækja.

Eins og ég nefndi eru með frumvarpi þessu einnig lögð til ný ákvæði sem var ekki að finna í eldra frumvarpi og vík ég nú að þeim.

Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem snúa að afmörkun hafnarsvæða. Lagt er til að í hafnarreglugerð verði mælt fyrir um afmörkun tiltekinna hafnarsvæða, þ.e. þjónustusvæða, skipulagssvæða á sjó sem teljast jafnframt vera mengunarlögsaga hafnarsvæðanna, hafnsögusvæða sem og hafnarsvæða farþegaskipa. Í núgildandi hafnalögum eru hafnarsvæði á sjó hvorki skilgreind né er að finna viðmið um afmörkun þeirra. Þetta hefur leitt til áskorana við beitingu hafnalaga sem hér er brugðist við.

Í 3. gr. er lagt til að verkefni skv. 1. mgr. 6. gr. hafnalaga verði færð frá Samgöngustofu til Vegagerðarinnar. Með þessu eru ekki gerðar efnislegar breytingar á hlutverki stjórnvalda samkvæmt lögunum. Í framkvæmd hefur Vegagerðin sinnt ákveðnum verkefnum sem Samgöngustofu eru falin samkvæmt hafnalögum. Eru því með frumvarpinu lagðar til breytingar á hafnalögum þannig að lögin endurspegli framkvæmdina eins og hún er í raun.

Þá er með frumvarpinu í 7. gr. lagt til að ákvæði um hafnsögu, sem nú er að finna í lögum um Vaktstöð siglinga, nr. 41 frá árinu 2003, séu færð í hafnalög. Talið er rétt að ákvæði um hafnsögu sé að finna í hafnalögum og því er lagt til að ákvæðin færist óbreytt yfir.

Í 9. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á ákvæði um kærur á ákvörðunum hafnarstjórna. Með breytingunni verða gjaldskrárákvarðanir sem ekki eru kæranlegar samkvæmt núgildandi lögum kæranlegar til Samgöngustofu. Er lagt til að ákvarðanir hafnarstjórna er varða rekstur hafna séu einnig kæranlegar. Með þessu er kæruheimildin afmörkuð þannig að ákvarðanir sem varða ekki hafntengda þjónustu með beinum hætti verði ekki kæranlegar. Þá er með frumvarpinu lagt til að þeir aðilar sem annast fermingu og affermingu búlkaskipa tilkynni um þá starfsemi til Samgöngustofu. Þörf er á þessu ákvæði svo að Samgöngustofa hafi yfirsýn yfir starfsemina vegna eftirlitsskyldu stofnunarinnar.

Að lokum er í 7. gr. lagt til að Samgöngustofu verði heimilt að kveða á um aðgangsbann að höfnum. Aðgangsbannið getur náð til skipa sem hafa ítrekað gerst brotleg við reglur um hafnarríkiseftirlit, sætt farbanni þrisvar eða oftar, eru á svörtum eða gráum lista Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit eða til framkvæmdar á alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Samgöngustofa hefur sem stendur enga heimild til að leggja fyrir hafnir að virða bann sem hér er brugðist við.

Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á ríkissjóð í för með sér. Frumvarpið kemur til með að hafa kostnað í för með sér sem leiðir af 9. gr. frumvarpsins um kærur á gjaldskrárákvörðunum. Um er að ræða nýtt verkefni sem mun kalla á aukna vinnu hjá Samgöngustofu. Þá getur frumvarpið leitt til vinnu hafnarstjórna við að veita umsagnir um kærur á gjaldskrárákvörðunum. Frumvarpið er ekki talið hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem og 2. umræðu.