131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:13]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að leiðrétta málflutning sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, viðhafði hér um stefnu Framsóknarflokksins í skattamálum þar sem hann fullyrti að Framsóknarflokkurinn væri á móti lækkun matarskattsins. Slíkt er ekki rétt. Ég held að hv. þingmaður finni ekki þau orð töluð úr þessum ræðustóli þar sem einhver af forustumönnum Framsóknarflokksins hefur gefið það í skyn að við værum sérstaklega á móti lækkun matarskattsins.

Þessi fullyrðing um að lækkun matarskattsins komi jafnt við alla þjóðfélagsþegna er dálítið merkileg. Ég veit ekki hvar hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alinn upp en ég hef ekki orðið var við það að lágtekjufólk eyði jafnmiklum fjármunum í matarinnkaup og hátekjufólk. Ég hef ekki orðið var við það. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið var við að lágtekjufólk fari í sérverslanir og kaupi sér lambalundir og lambafillet eins og kannski bankastjórinn gerir. Þannig er íslenskur veruleiki.

Stefna Framsóknarflokksins í málefnum þeirra sem tekjulægri eru, barnafólks hér á landi, er sú að auka barnabætur sem eru tekjutengdar í eðli sínu. Stjórnarandstaðan er reyndar á móti henni. Hún er á móti tekjutengingum en þannig viljum við koma allt að 3 milljörðum sérstaklega til þess barnafólks sem hefur úr hvað minnstum fjármunum að spila. Þetta er skattapólitík Framsóknarflokksins. Ef hv. þm. ætlar að standa hér og segja að lágtekjumaður eyði jafnmiklu í sína matarkörfu og hátekjumaður er það rangt. Það er ekki íslenskur veruleiki og við vitum öll, allir hv. þm. sem hér erum, að slíkt er rangt.

Við skulum hækka barnabætur til hagsbóta fyrir lágtekjufólk, til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur.