131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir þá mikilvægu umræðu sem hér fer fram. Geðsjúkdómar snerta fjölmarga í samfélaginu og ekki einungis þá sem veikjast heldur einnig aðstandendur þeirra. Fullyrða má að viðhorf til geðsjúkdóma hafi tekið umtalsverðum breytingum til batnaðar á síðustu áratugum.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi fyrir um það bil ári að kynnast mjög jákvæðri starfsemi sem geðfatlaðir starfrækja. Það er klúbburinn Geysir. Markmið klúbbsins er m.a. að brjóta upp félagslega einangrun og gera félagsmenn virka í samfélaginu.

Öllum má ljóst vera að stjórnvöld verða að sinna þessum málaflokki mun betur en gert er. Það er nauðsynlegt að bregðast við vanda þeirra hundruða sjúklinga bæði barna og fullorðinna sem bíða eftir heilbrigðisþjónustu.

Mér fannst því miður hæstv. heilbrigðisráðherra ekki gefa skýr svör. Svörin virtust samtíningur úr fjárlögum liðinna ára en ekki yfirlit um stöðu mála. Það er með öllu óþolandi að það skorti á að ráðuneyti félagsmála og heilbrigðis- og dómsmála vinni saman að farsælli lausn á þessum málaflokki. Oft vísar hver á annan og mál erfiðra einstaklinga velkjast um í kerfinu. Dæmin sanna því miður að það getur verið mjög dýrt fyrir samfélagið að leysa ekki strax úr erfiðum málum. Að endingu komast málin í algert óefni og allar lausnir verða mjög dýrar.

Ég vona sannarlega að umræðan á hinu háa Alþingi skili geðfötluðum ávinningi og verði til að þessum málaflokki verði sinnt betur en hingað til. Ég trúi því að ef þessi málaflokkur yrði settur í forgang þá mundi það skila okkur betra þjóðfélagi.