131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:26]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum í stjórnkerfi okkar ýmsan mekanisma sem jafnar kjör fólks með tilliti til búsetu og ég tel að við höfum það í hendi okkar að jafna út líka þennan flutningskostnað til þess að það þurfi ekki endilega að bitna á neytendunum í hinum dreifðu byggðum þó að flutningskostnaðurinn yrði meiri. Ég tel að það þurfi fyrst og fremst að gera þetta vegna þess að við þurfum að fæla flutningsaðilana fyrir alvöru frá því að nota flutninga á landi jafnmikið og þeir gera.

Við þurfum að hvetja þá til að nota sjóflutningana og við hefðum átt að gera það miklu fyrr eins og ég sagði í ræðu minni. Kannski erum við búin að missa tækifærið til að endurreisa sjóflutningana sem mér þykir þá mjög miður. Kannski hefðum við átt að bregðast við af miklu meira afli miklu fyrr en það er svo sem einfalt að standa hér og tala í viðtengingarhætti um þetta mál. Ég tel í öllu falli að hér sé um mikla ábyrgð að ræða sem hvílir á okkur sem í þessum sal erum. Sú umræða sem hér hefur farið fram gerir það vonandi að verkum að atvinnurekendur og flutningsaðilar skoði þetta aðeins hjá sér og reyni þá að svara þeirri spurningu sem hv. formaður samgöngunefndar varpaði fram í ræðum sínum:

Hvers vegna í ósköpunum eru menn að flytja á landi þegar það virðist vera miklu ódýrara að flytja á sjó?

Svo vil ég að lokum segja að það er ánægjulegt að hv. formaður samgöngunefndar skuli taka virkan þátt í þessari umræðu. Ég tel að hún sé þess eðlis að það sé skapandi og jákvætt fyrir okkur að skiptast á skoðunum um þetta. Þó að við snúum kannski ekki við tímahjólinu í þessum efnum skiptir það máli að opna aftur möguleikana á strandsiglingunum því að þetta er spurning um að hafa kerfi þar sem ekki er annaðhvort eða, heldur þar sem við getum séð til þess að vörur séu fluttar bæði á sjó og landi, og ekki síður á sjó.