132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:33]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum nú ekki látið gera það enda værum við þar að fara í þá vinnu sem tillagan felur í sér, því að þar segir jú:

„Alþingi ályktar að Vegagerðinni skuli falið að vinna tillögur sem byggist á því …“ o.s.frv.

Síðan segir í greinargerðinni:

„Ekki fer á milli mála að þekkingu við gerð jarðganga hefur fleygt fram hér á landi og að kostnaður fer lækkandi á hvern kílómetra í jarðgangagerð. Verkhraði er einnig meiri en áður …“ o.s.frv.

Nú vitum við að svona almennt talað í jarðgangagerðinni eru menn að tala um u.þ.b. 500 milljónir fyrir kílómetrann. Ég hef spurt samgönguráðherra að því hver kostnaðurinn hafi verið við jarðgöngin á Austurlandi, en ekki fengið tölur um það. En við vitum jú að það gekk ákaflega vel með Almannaskarðsgöng og einnig með göngin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar þannig að ég gæti svo sem vel trúað að menn væru að tala um lægri tölur en ég nefndi. Það hefur heldur ekki farið fram úttekt hjá Vegagerðinni um hver raunverulegur sparnaður af Hvalfjarðargöngum og Vestfjarðagöngum sé. Þetta þarf Vegagerðin auðvitað að fara að gera og láta þær upplýsingar koma fram hér fyrir hv. Alþingi og samgöngunefnd. Þeir verða að fara að leggja mat á og segja okkur hvað hefur sparast við að gera slíkar varanlegar lausnir. Miðað við slit og slys í þessum göngum þá verða þeir líka að geta sagt okkur miðað við spá hvað mun sparast á næstkomandi 10, 20, 30, 40 árum. Þetta eru auðvitað upplýsingar sem okkur vantar og í ljósi þess verður Vegagerðin að vinna svona tillögu og koma fram með tölur um þetta. Síðan er það auðvitað afstætt hvenær nákvæmlega menn horfa til sparnaðar. Ég kem kannski aðeins betur að því hér á eftir.