133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:10]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður las upp skýringarnar með greiðslunni þannig að ég þarf ekki að fara með þær aftur en eins og fram kom hjá honum var verkefnið ekki fjármagnað á þann hátt sem til stóð og því hefur það verið fjármagnað þannig að það hefur verið í skuld við ríkisféhirði og er verið að gera það upp á þennan hátt eins og skilmerkilega kemur fram í greinargerðinni. Ég hef eiginlega voðalega litlu við það að bæta sem þar kom fram og hv. þingmaður las upp því það er einfaldlega sannleikur málsins í eins greinargóðu máli og hægt er að setja hann.

Ég er hins vegar að verða ýmsu vanur í því hvað er tengt við framboðsmál mín og út af fyrir sig get ég ekki annað en verið ánægður með það ef menn telja allt sem til framfara horfir hvað varðar hestamennsku, landbúnað og önnur þau mál sem tengjast Suðurkjördæminu og landsbyggðarkjördæmunum almennt tengist því að ég skuli vera kominn í prófkjörsframboð í Suðurkjördæmi. Ég get varla ímyndað mér að hægt sé að fá betra veganesti frá félögum sínum á hv. Alþingi en einmitt slíkar umsagnir sem fram komu hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni.