135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:10]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Ásta Möller tekur undir það að við þurfum að skoða þetta í heildina. Ég vona að við gerum það saman. Munurinn sem ég geri á þessu tvennu er helst fólginn í því hver hefur hagsmunina af því að selja áfengi. Þegar hagsmunirnir verða einkahagsmunir, þar sem gróðasjónarmið er oftast aðalatriðið, efast ég um ágæti þess. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að einhver taki að sér að selja áfengi á vegum ÁTVR og það er í rauninni þannig nú þegar að einkaaðilar sjá um slíka sölu. Þetta er því fyrst og fremst spurningin um það hvort menn ætla að halda þessari vöru að neytendum, reyna að fegra ásýnd hennar, koma henni í aukna notkun eins og gjarnan gerist með vöru á almennum markaði sem seld er til ágóða fyrir viðkomandi fyrirtæki. Ég hef efasemdir um að það sé rétta leiðin.

Mér finnst rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi hvernig við umgöngumst t.d. tóbak — sem er bara annað eiturefni og líka nautnaefni. Við umgöngumst tóbak öðruvísi en vín. Það hefur komið upp í löndum í nágrenni við okkur að vín verði merkt með svipuðum hætti og tóbak er merkt. Það er líka eitt af því sem hv. þm. Ásta Möller nefnir og er umhugsunarefni: Með hvaða hætti á að setja þessa hluti fram? Þó að opnunartími sé takmarkaður eru engin ákvæði um það hvar eigi að staðsetja vöruna í verslunum eða neitt slíkt. Ég sé þann mun á ríkiseinkasölu eða sölu einkaaðila, þ.e. hvort verið er að halda víni að fólki af þeim sem hafa hag af því að selja sem mest.