142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í fullri vinsemd og með vísan til yfirlýsinga bæði stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar um mikilvægi samráðs og sáttar lýsti hæstv. forseti Alþingis því yfir í ræðu sinni við setningu þessa sumarþings, þegar hann hafði verið kjörinn til setu á þeim stóli næstkomandi fjögur ár, að hann mundi leggja á það ríka áherslu að til þings kæmu stjórnarmálefni frá ríkisstjórninni tímanlega fyrir þingið til að hafa um þau vandaða umfjöllun.

Nú liggur fyrir að í dag þarf að taka inn stjórnarfrumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra með afbrigðum og vantar þó enn eitt eða tvö mál frá honum. Þau koma þá ekki til 1. umr. fyrr en í næstu viku og mér sýnist þess vegna ljóst að ríkisstjórnin sé að fara með þingið inn í júlímánuð vegna þess hversu seint málin koma fram. Það leiðir af eðli máls að tryggja þarf vandaða umfjöllun í þinginu. Við höfum ekki lagst fyrir nein mál og hér hafa mál farið greiðlega í gegnum umræður til nefndar. (Forseti hringir.) Stjórnarmeirihlutinn getur auðvitað staðfest að hér hefur ekki verið (Forseti hringir.) um annað að ræða en góða samvinnu af hálfu stjórnarandstöðunnar.