143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

35. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands. Einhver mundi nú ætla að það væri svo sjálfsagt og eðlilegt að slíkt væri auðvitað til staðar en svo er ekki.

Tillagan hljómar svona:

Alþingi ályktar að fela ráðherra að móta viðskiptastefnu sem hafi að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Stefnan verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu fyrir 1. júlí 2014.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég flyt þetta mál ásamt fleiri hv. þingmönnum. Hér er gert ráð fyrir því að mótuð verði viðskiptastefna í þeim tilgangi eins og ég nefndi að auka veg innlendrar verslunar og bæta hag neytenda. Það er gert með því að endurskoða fyrirkomulag skattamála, þar með talið tolla- og vörugjöld.

Virðulegi forseti. Við höfum algjöra sérstöðu hvað þetta varðar því að við erum ekki í tollabandalagi, að vísu höfum við kannski ekki sérstöðu á heimsvísu en við erum alla vega ein af þjóðum Evrópu sem eru ekki í tollabandalagi. Við getum því algjörlega ráðið þessu sjálf. Það er enginn sem skiptir sér af því. Ef við værum í Evrópusambandinu gætum við ekki gert það. Núna erum við algjörlega í þeirri stöðu að við ráðum þessu og það vantar í umræðuna að taka mið af þeirri staðreynd þegar hingað koma menn sem segja að sumt sé of hátt verðlagt miðað við ýmislegt annað og það lagist með því að fara í tollabandalag, segjum ESB. Menn gleyma þeirri staðreynd að við getum ákveðið þetta einhliða.

Við stýrum tollunum okkar. Við stýrum vörugjöldunum okkar. Við stýrum virðisaukaskattinum. Ég tel skynsamlegt að við settum okkur markmið um að færa störf til landsins því að fólkið, sem rekur hér verslanir og vinnur á Laugaveginum eða Akureyri eða hvar sem er, er ekki bara í samkeppni innbyrðis, það er í samkeppni við önnur lönd. Ef okkur tekst að færa verslun til landsins þá fjölgum við störfum hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég hugsa hlýlega til verslunarfólks í öðrum löndum en mér finnst samt sem áður að það eigi að vera markmið okkar að fjölga störfum hér á landi. Ég veit ekki hvort fólk er meðvitað um það að á Íslandi er í gangi fátæktarskattur sem felst í því að við höfum mótað skatt- og tollakerfi okkar með þeim hætti að við ýtum verslun til útlanda þannig að Íslendingar margir hverjir versla hluti sem okkur finnst vera sjálfsagðir eins og föt og skór, sérstaklega barnaföt, í öðrum löndum. Auðvitað er það ekki markmið að koma í veg fyrir það, alls ekki, en vitið þið hvaða Íslendingar versla fyrst og fremst erlendis? Það eru þeir sem hafa meira á milli handanna, þeir sem hafa efni á því að fara til útlanda. Þeir geta keypt sér ódýrari vöru en þeir sem hafa minna á milli handanna og hafa ekki efni á að fara til annarra landa.

Stefnan sem við erum með í gangi núna er hrein og klár. Við erum að setja fátæktarskatta með þeirri stefnu sem er í gangi núna. Þeir sem hafa meira á milli handanna fara bara annað. Hinir sem hafa minna á milli handanna verða að kaupa dýrari vöruna hér heima.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé nokkuð sem við á hv. Alþingi ættum að geta sameinast um að gera. Ég er ekki að segja að við eigum að vera algjörlega sammála um hvernig stefnan eigi að líta út, ég veit það ekki, það á eftir að reyna á það. Ég mundi ætla að það ætti að vera forgangsmál hjá okkur að ganga þannig fram að eðlilegar nauðsynjavörur séu á jafn hagkvæmu verði og mögulegt er hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að sjá hversu þéttsetinn bekkurinn er. Er einhver hér inni á móti þessu? Er einhver á móti þessu? Nú kann einhver að segja, eins og stundum hefur verið sagt og hefur oft verið notað sem rök fyrir því að vera með tolla og aðrar viðskiptahindranir, að við séum þar af leiðandi að halda versluninni í landinu, en svo er ekki. Við verðum þá að stöðva að fólk fari til útlanda eða koma í veg fyrir að það komi heim með vörur. Ég hef ekki heyrt neinn tala fyrir slíku og ég vona að enginn tali fyrir slíku. Að því gefnu að við séum fylgjandi frjálsu flæði fólks er eina leið okkar og það er engin neyðarleið, það er bara góð og skynsamleg leið, að lækka hér tolla og vörugjöld. Það er enginn vafi í mínum huga á því að það mun líka auka verslun hér á landi. Það mun gera að verkum að við munum fá meiri tekjur inn í ríkiskassann fyrr en seinna.

Virðulegi forseti. Nú þekki ég þetta mál nokkuð því að fyrir nokkrum árum, þegar ég var ungur maður, gerði ég sérstaka ritgerð um þetta, lokaritgerðina mína í háskólanum, um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Ég komst að því sem ég vissi ekki fyrir að sum lönd og svæði sem hafa náð hve mestum árangri í efnahagslegu tilliti, á meðan svæðin sem voru við hliðina náðu því ekki, gerðu það með því að stunda algjört frelsi í viðskiptum. Til dæmis Hong Kong og Singapúr. Þegar þau gengu í Alþjóðaviðskiptastofnunina þurftu þau í fyrsta skipti að fara að flokka vörur til þess að setja á þær tollnúmer. Þau voru ekki með neina tolla. Það er svolítið magnað að þessi svæði, þó svo að þau séu síður en svo gallalaus, langt því frá, hafi náð mun meiri efnahagslegri velmegun en svæði sem reyndu að halda versluninni innan sinna vébanda með miklum aðgangstakmörkunum.

John Maynard Keynes sagði: Allar verslunarhömlur eru tæki sem þjóðirnar hafa fundið upp til þess að gera sig og aðra fátækari — gera sig og aðra fátækari. Það er mjög mikið til í því. Mestu hagvaxtarskeið heimsins á viðkomandi svæðum hafa verið þegar verslun er hve frjálsust. Ég gæti, virðulegi forseti, haldið langa ræðu um það en ég hvet ykkur til þess að skoða þessa þingsályktunartillögu, ég hvet ykkur til að skoða skoðanakönnunina sem við settum sem fylgiskjal sem sýnir svart á hvítu hvaða fólk það er sem hefur tækifæri til þess að kaupa ódýrar vörur, ódýrar nauðsynjavörur. Það er fólk sem hefur meira á milli handanna. Ég segi: Breytum þessu, gerum það að verkum að allir geti keypt sér ódýrar vörur. Ég tel raunar að það eigi að vera sérstakt markmið að þeir sem hafa minna á milli handanna eigi þess kost að kaupa sér ódýrar nauðsynjavörur. Til þess að svo megi verða þurfum við að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að málið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og vona að ég þurfi aldrei aftur að flytja það en það mun ekki gerast nema þetta verði samþykkt hér á hv. þingi.