144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Við vitum öll og þekkjum það vel að Vestfirðingar eru orðnir óþreyjufullir eftir niðurstöðu í þessu máli en auðvitað einnig niðurstöðu í öðrum brýnum samgöngumálum á svæðinu. Og ég tek undir það með heimamönnum og hef alltaf gert það. Þess vegna yrði aldrei um það að ræða sem kallað var hér áðan að þvinga fram vilja ráðamanna í gegnum lagasetningu, vegna þess að við vitum hver vilji heimamanna er. Vilji heimamanna í þessu máli hefur verið mjög skýr og ítrekaðar ályktanir komið frá sveitarfélögum og samfélögum á þessu svæði.

Nú stöndum við frammi fyrir, og það var rétt sem hv. þingmaður lýsti hér áðan, algjörri stjórnsýsluflækju um fullkomlega sjálfsagðan hlut. Við erum búin að velkjast í þessu máli í mörg, mörg ár. Og við skulum ekkert benda á einn öðrum fremur því kerfið hefur einfaldlega unnið einhvern veginn þannig með málið að það hefur tekið gríðarlega langan tíma.

Ég held að það sem við stöndum frammi fyrir núna sé fyrst og síðast að reyna að átta okkur á niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Það er rétt að niðurstaða stofnunarinnar var að sjálfsögðu vonbrigði en úr henni verður samt að vinna. Hér er spurt beint: Telur ráðherra koma til greina að skoða sérstaka lagasetningu vegna málsins? Já. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og get endurtekið það Mér finnst að það þurfi að skoða það. Það þýðir ekki að ég muni flytja frumvarp á næstu dögum um slíkt en ég tel það ekki útilokað. Ég tel að vandinn sé bráður, ég tel þetta eitt brýnasta samgöngumál svæðisins og eitt af brýnni samgöngumálum í landinu, þannig að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vinna málið frekar og klára það.

Ég hef rætt málið í ríkisstjórn, ég hef rætt það í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Á morgun mun ég hitta þingmenn svæðisins, Vestfjarða. Við munum setjast niður með vegamálastjóra og umhverfis- og samgönguráðherra og fleirum til að reyna að átta okkur á stöðunni. Ég held að það sé ljóst að við stöndum frammi fyrir þremur kostum og við þurfum að velta því fyrir okkur hvað er best í því.

Fyrsta leiðin er sú að kæra, líkt og Vegagerðin hefur tilkynnt að hún muni gera. Sú kæruleið tekur auðvitað dálítinn tíma, gæti tekið langan tíma, nokkur ár jafnvel, eitt eða tvö ár að fá endanlega niðurstöðu í því. Og það getur vel verið að við metum það þannig að það sé einfaldlega of langur tími. Að mínu mati er það of langur tími.

Önnur leið er sú sem hv. þingmaður nefndi hér og það er að óska eftir endurupptöku vegna breyttra forsendna á grunni ólögfestra reglna um endurupptöku mála. Þingmaðurinn nefndi það áðan að slíkt mundi taka mjög langan tíma. Það er ekki endilega víst. Við erum að láta rýna það og það gæti hugsanlega tekið skemmri tíma en við höfum gert ráð fyrir. Ég tel því að við eigum að skoða það áður en við ákveðum frekar hvað við gerum.

Svo er það í þriðja lagi leiðin sem hefur ítrekað verið nefnd og það er að setja sérlög til að heimila veglínu um Teigsskóg. Ég held að áður en við förum í slíka umræðu þurfum við að ígrunda vel og nákvæmlega hvaða öðrum kostum við stöndum frammi fyrir og hvort við getum fengið einhverja niðurstöðu í málið innan nokkurra mánuða. Á grundvelli þess verðum við að meta hvort við tökum málið lengra.

Það er ekki alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns um leiðirnar sem hafa verið kallaðar leið A1 og leið I. Þó að þær séu báðar í matsáætlun sem lögð var fyrir Skipulagsstofnun og við höfum verið reiðubúin að skoða þær nánar eru þær lausnir ekki jafn aðgengilegar og hv. þingmaður lýsti. Það er andstaða við þær líka, landeigendur á svæðinu hafa lýst sömu andstöðu við þær og við leiðina sem við erum stöðugt að ræða. Talið er að þar yrðu ákveðin umhverfisáhrif veruleg. Það er því ekki svo einfalt að það sé bara hægt að ganga í þær núna vegna þess að hin leiðin hafi ekki verið samþykkt. Þannig er það ekki, það er óvissa fyrir því að við fengjum leyfi fyrir þeim leiðum. Þess vegna hefur verið svo mikilvægt að hafa Teigsskógsleiðina inni í öllum áætlunum.

Mitt stutta svar við þessu er því ósköp einfalt og ég hef ítrekað sagt það: Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt brýnasta samgönguverkefni sem við stöndum frammi fyrir, sannarlega brýnasta verkefnið á þessu svæði og það verður að leysa það. Við munum setjast yfir það með þingmönnum allra flokka á morgun. Við munum sannarlega hitta íbúa á svæðinu til að átta okkur á því hvaða leið þeir vilja helst fara þegar staðan er orðin þessi og hvort við getum fengið einhver skýr svör. Ég hef sagt að við verðum að fá einhver skýr svör um næstu skref innan nokkurra mánaða. Við getum ekki talið þetta tímabil lengur í árum, það er einfaldlega ekki hægt að bjóða upp á það.

Um Dýrafjarðargöng sem hér voru nefnd og stöðu flugsamgangna almennt. Dýrafjarðargöng eru á samgönguáætlun og að öllu óbreyttu er miðað við að verkið verði boðið út árið 2016 og framkvæmdum ljúki árið 2019. Þetta er eitt af stóru, brýnu verkefnunum á þessu svæði og ég vona innilega, eins og ég hef sagt áður í umræðum á þingi, að okkur auðnist það og takist sem allra fyrst að tryggja það (Forseti hringir.) að Vestfirðingar geti notið þeirra lífsgæða sem þetta svæði býður upp á og samgöngur standi ekki í vegi fyrir því.