145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa yfir ánægju með þær aðgerðir sem hafa verið kynntar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna stríðsins í Sýrlandi og annarra flóttamanna sem margir hverjir hafa komið til Evrópu að undanförnu en miklu fleiri bíða enn úrlausnar annars staðar eins og hv. þingmaður nefndi.

Það er líka rétt sem hann gat um, að þetta er verður viðvarandi vandamál um fyrirsjáanlega framtíð. Það er mikilvægt að nálgast það á þann hátt og nálgast það þar af leiðandi heildstætt.

Hv. þingmaður talaði um það vonleysi sem virðist skiljanlega vera ríkjandi sums staðar í flóttamannabúðum, ekki hvað síst í Líbanon, og mikilvægi þess að við gæfum þessu fólki einhverja von frekar en að skilaboðin frá Íslandi og öðrum Evrópulöndum væru þau að ekkert væri gert nema menn legðu í lífshættulega ferð til að reyna að smygla sér til Evrópu. Það er einmitt þess vegna sem sérstök áhersla er lögð á það í þeirri áætlun sem var kynnt í fyrradag að gefa fólki kosti á því að koma beint frá flóttamannabúðum til Íslands. Þar er Líbanon nefnt sérstaklega.

Mér skilst að aðstæður í flóttamannabúðum séu mjög mismunandi eftir því hvar þær eru. Í Tyrklandi og Jórdaníu mun ástandið ekki vera jafn slæmt og í Líbanon og þess vegna leggjum við okkar af mörkum til að bæta ástandið í þessum búðum, t.d. með því að veita heilbrigðisþjónustu og matvæli, en einnig að gefa fólki sem uppfyllir þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta talist flóttamaður tækifæri á að koma til Íslands í það stórum hópum að við getum veitt því alla nauðsynlega þjónustu hér.