149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég er um leið einkar þakklát og stolt af að fá að vera meðflutningsmaður á því. Við erum að tala um réttlætismál. Við erum að tala um hrein sanngirnismál. Við erum að tala um að með ofríki stjórnvalda sé í rauninni vegið að þeim samfélagshópi sem höllustum fæti stendur í samfélaginu. Flestum þætti nóg að hafa fengið það í vöggugjöf að vera fatlaður, að þurfa að burðast með það að vera fangi í eigin líkama, þó að ekki sé unnið að því með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að gera viðkomandi kleift að bjarga sér ef hann gæti það mögulega. Maður spyr sig t.d. um krónu á móti krónu skerðinguna. Það er nú allt í lagi með mig og hv. þingmann, meðflokksmann minn, Guðmund Inga Kristinsson, sem höfum þurft að hokra á örorkubótum fram að því að við urðum kjörin á Alþingi Íslendinga, í boði þessa hóps sem við erum að berjast fyrir, ekki síst öryrkja. Við höfum staðið í þessum sporum, við vitum hvað það er. Við náðum ekki endum saman og við áttum líka börn. Ég ól upp fjögur börn. Gat ég veitt börnunum mínum það sem nágrannarnir gátu almennt gert? Nei, ég gat það ekki. Er sárt að horfa upp á það að maður sé svo vanmáttugur að maður geti með engu móti tekið eðlilegan þátt í samfélaginu, alveg sama hversu mikill viljinn er? Já, það er sárt.

Öryrkjum fjölgar. Það er talað um offjölgun öryrkja. Hvers vegna í veröldinni fjölgar öryrkjum svona mikið? Hvernig getum við fækkað öryrkjum? spyrja ráðamenn. Ég vildi reyna allt annað en að hrinda þeim fyrir björg eins og ég hef áður sagt, en lítil úrræði virðast vera í boði. Það er einhvern veginn eins og þessi þjóðfélagshópur, ásamt láglaunafólki og þeim hluta þeirra eldri borgara sem býr við mjög bág kjör, eigi að halda þjóðarskútunni á floti. Að hugsa sér, ef við kæmum til móts við þennan þjóðfélagshóp, þessa hópa, hættum að skerða þá, kúga og koma í veg fyrir að þeir geti mögulega bjargað sér sjálfir upp úr þeirri manngerðu fátæktargildru sem er hér í boði stjórnvalda, er ekki svolítið furðulegt að ímynda sér að þá færi þjóðarskútan á hliðina?

Það er enginn að spá í það hvernig börnum öryrkja líður. Er einhver að spá í það að ef mamma og pabbi eða mamma væri ekki skert króna á móti krónu, hvort hún myndi ekki frekar reyna að fara út og drýgja tekjurnar ef hún hefði heilsu til? Gæti einstaklingurinn mögulega náð sér upp úr fátæktargildrunni? Er það ekki spurningin sem við eigum að spyrja okkur? Hvernig getum við komið til móts við þá sem eiga erfiðast í samfélaginu, berjast í bökkum og ná ekki endum saman? Hvernig getum við komið til móts við þá og sýnt í verki að þeir séu hluti af samfélaginu sem við berum virðingu fyrir og erum stolt af að fá að lifa hér með?

Ég er ekki búin að gleyma síðustu kosningabaráttu. Ég er ekki búin að gleyma því að fyrir tæpu ári man ég ekki eftir einum einasta fulltrúa í stjórnmálaumræðunni, í kappræðunum, sem ekki lofaði bót og betrun og sagði að króna á móti krónu skerðingin væri ósanngjörn og vildi burt með hana. Auðvitað styðjum við það, sögðu þau öll, við ætlum að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Kjósið mig og allt verður í lagi.

Frumvarpið hefur áður verið flutt. Það var flutt síðasta vetur. Hvert fór það? Hvað varð um það? Af hverju er það komið aftur fram? Vegna þess að þeir aðilar sem lofuðu að þeir skyldu afnema krónu á móti krónu skerðingu til að reyna að kaupa sér atkvæðin okkar síðasta vetur stóðu ekki við loforð sín.

Venjulega daga þessi mál uppi í nefnd og komast aldrei í almenna umræðu í þinginu. Það er ekki nóg með að nánast allt sé gert til að koma í veg fyrir að gefa fólki kost á að bjarga sér sjálft, heldur situr það líka sem öryrki, einstætt foreldri, öryrki á lágmarksframfærslu, skert króna á móti krónu og á barn sem dettur í það að verða 18 ára gamalt. Hvað gerist þá? Það er skert. Það missir heimilisuppbót. Það missir alla skapaða hluti. Það er skert, húsaleigubætur skertar, allt saman. Það er komið með 18 ára fullveðja einstakling inn á heimilið jafnvel þó að ekkert hafi gerst nema það að á miðnætti gekk sonurinn eða dóttirin yfir þann þröskuld að verða 18 ára gamall eða gömul — en aðstæður foreldris hafa ekkert breyst. Foreldrið er sami öryrkinn og það var fyrir miðnætti þegar barnið var 17 ára. En núna verður minn kæri öryrki skertur enn þá meira þrátt fyrir að þurfa jafnvel enn þá meira á því að halda að fá fleiri krónur inn til þess að geta mögulega aðstoðað barnið sitt í námi.

Hvað er þá tekið til bragðs? Það er reynt að setja barnið eitthvað annað. Á hann ekki einhverja frænku eða frænda? Er ekki hægt bara að flytja lögheimilið eitthvað annað? Hvað getum við gert til að reyna að bjarga okkur? Ekki er ríkisvaldið að hjálpa okkur til þess, er það? Nei, það er ekki að því.

Ég bíð ótrúlega spennt eftir afdrifum þessa frumvarps. Ég gæti ekki verið spenntari, virðulegi forseti, eftir að sjá efndirnar, hvort það sé meira að marka okkar ágætu samþingsmenn núna en endranær. Þegar þessum ólögum var komið á í kjölfar hrunsins voru fæstir, ef nokkrir, í samfélaginu höggnir annað eins niður úr öllum rjáfrum og skerðingum og eldri borgarar og öryrkjar. Á þetta hefur ágætur hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson bent. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem hefur ekki fengið neina afturvirka leiðréttingu. Það þykir bara í fína lagi. En okkur í Flokki fólksins finnst það ekki allt í lagi og svo sannarlega ekki meðflutningsmönnum okkar á þessu góða frumvarpi hv. þm. Halldóru Mogensen.

Það þarf ekkert annað en sameinað átak. Það þarf ekki annað en rökhugsun í áttina að því að spyrja sem sagt: Af hverju er einstaklingur 75% varanlegur öryrki? Gæti hann mögulega unnið einhvern tíma, kannski tvo daga í viku, kannski hálfan daginn einhverja daga vikunnar? Gæti hann mögulega aflað sér tekna? Gæti hann mögulega lyft sér upp úr þunglyndinu? Gæti hann mögulega lyft sér upp úr manngerðu fátæktargildrunni með því? Já, hann gæti það hugsanlega. En við, eða réttara sagt ríkisstjórnin og hið háa Alþingi kemur í veg fyrir að þau geti það. Algjörlega.

Maður spyr sig: Ef þessi einstaklingur fengi tækifæri á að fara út að vinna, færi honum hugsanlega að líða betur? Stór hluti öryrkja á við andlega erfiðleika að stríða, þunglyndi og vanlíðan. Ef við tökum heildstæða mynd, hvaða áhrif hefur það á einstakling — við erum félagsverur — að fá að fara út í samfélagið, eiga kost á því að vera innan um aðra, vinna, finna til pínulítils stolts? Viðkomandi getur hugsað: Ég get þetta, ég get þetta, víst get ég þetta og ég borga skatt af því í ríkissjóð, okkar sameiginlega sjóð.

Það gleymist að taka mið af því þegar verið er að tala um kostnað við öryrkja. Við erum örorkubyrði. Hv. Guðmundur Ingi Kristinsson þekkir vel hvernig það kemur fram á excel-skjalinu, óæskilegur fjöldi, og örorkubyrðin sem við öryrkjar erum í excel-skjalinu. En við erum mannauður. Það er hægt að gera ýmislegt ef vilji er fyrir hendi til að efla, styrkja og virkja þann mannauð. Einn stór liður á þeirri vegferð er nákvæmlega sá að afnema krónu á móti krónu skerðingu og um leið efla einstaklinginn, öryrkjann í þessu tilviki, til að reyna a.m.k. að athuga hvort hann getur unnið, athuga hvort hann hefur bolmagn til þess. Það erum við, hv. þingmenn og ráðamenn, sem getum gert þeim þetta kleift.

Ég hef gjarnan sagt: Tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum þegar við horfumst í augu við sannarlegt sanngirnis- og réttlætismál. Þegar við lítum heildstætt á málið sést svo ekki verður um villst að kostnaðurinn sem af því hlýst er enginn — bara hagur af því að afnema krónu á móti krónu skerðingu.

Enn og aftur, hv. þm. Halldóra Mogensen og allir aðrir þeir góðu þingmenn sem ljá þessu máli lið, bjartsýn og brosandi: Ég trúi því ekki fyrr en við tökum á því að öll loforð sem gefin hafa verið fólkinu okkar í síðustu kosningabaráttu hvað varðar stöðu öryrkja og krónu á móti krónu skerðingu hafi bara verið innantómt blaður. Við siglum bjartsýn og brosandi áfram.