150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[15:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Af því að þingmaðurinn spyr hvort það sé til einhvers að véla fólk yfir í aðra flokka, þá erum við öll fullorðið fólk hérna inni og tökum okkar ákvarðanir út frá því. Ég vil hins vegar vekja athygli þingmannsins á því að þeir tveir ágætu hv. þingmenn sem bættust við þingflokk Miðflokksins fyrir skömmu komu til liðs við Miðflokkinn eftir að þeirra eigin flokksmenn höfðu rekið þá úr sínum flokki. Þegar þeir komu til liðs við Miðflokkinn voru þeir óflokksbundnir þingmenn sem í höfðu í raun verið á hrakhólum vegna þess að um leið og þeir voru reknir úr sínum þingflokki misstu þeir þáverandi skrifstofuhúsnæði sitt og voru, eins og maður segir, svona frekar einir á báti, í þess orðs fyllstu merkingu. Þannig að allt tal um það að Miðflokkurinn hafi verið að véla fólk til sín — það eru náttúrlega allir velkomnir þangað, hv. þingmaður. Auðvitað fögnum við hverjum góðum liðsmanni sem gengur til liðs við Miðflokkinn. Ég get alveg trúað því að fleiri þingmenn eigi eftir að fylgja þeim tveimur sem hingað til hafa gengið til liðs við þann góða flokk. En ég vil bara vekja athygli hv. þingmannsins á því að þegar þessir tveir heiðursmenn komu til liðs við Miðflokkinn voru þeir utan flokka vegna þess að þeirra eigið fólk hafði rekið þá úr þingflokki sínum.