150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

129. mál
[16:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum afskaplega brýnt mál sem er hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna. Ég er stoltur af því að vera einn af tíu flutningsmönnum þessa frumvarps sem gengur út á að hækka starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna úr 70 árum í 73 ár. Það eina sem ég er ósáttur við er að ekki skyldi vera gengið lengra. Margir þeirra sem neyðast til að hætta að vinna þegar þeir verða sjötugir eru mjög ósáttir við að hætta að vinna. Þetta eru þeir sem hafa heilsu, vilja og getu til að halda áfram vinnu. Þá á auðvitað ekki að neyða til að hætta, alls ekki, sérstaklega ekki á tímum þar sem vöntun er á vinnuafli í samfélaginu eins og nú er. Það vantar fleiri vinnufúsar hendur. Þetta eru einmitt þeir starfsmenn sem eru samviskusamastir, stundvísastir og hafa yfir þekkingu og reynslu að ráða, oft talsvert umfram aðra. Hér erum við að tala um hreina sóun á vinnuafli, að í þeim mánuði sem menn verða sjötugir renni upp síðasti söludagur. Þeir neyðast til að hætta að vinna, jafnvel sumir hverjir með heilsu, starfsgetu og vilja til að halda áfram. Þetta er auðvitað sorglegt, frú forseti.

Við erum að tala um að jafnvel þótt þessi aldursmörk verði færð ofar verði hverjum auðvitað frjálst að hætta störfum þegar hann sjálfur kýs þegar hann er kominn á eftirlaunaaldur. Þetta frumvarp breytir því ekki. Eins og kunnugt er er íslenska þjóðin að eldast og hefur verið að eldast mjög hratt undanfarin ár og áratugi. Það er auðvitað öllum kunnugt um það að fyrir 30–40 árum var fólk sem var komið á áttræðisaldur eða níræðisaldur orðið fjörgamalt. Það er allt annað í dag. Mjög margir sem eru komnir upp fyrir sjötugsaldurinn hafa mjög góða starfsorku. Við eigum auðvitað að stuðla að því að þeir geti unnið, kjósi þeir svo.

Hv. flutningsmaður nefndi að hann hefði fengið símtöl. Ég hef fengið símtöl líka og skeyti. Einn var 69 ára og hann kveið mikið fyrir þeim degi sem hann þyrfti að hætta að vinna. Hann langaði til að vinna áfram. Við eigum auðvitað ekki með lagasetningu að koma í veg fyrir að fólk geti unnið lengur ef það kýs að gera það.

Það er ekki bara meðalaldur þjóðarinnar sem hefur farið hækkandi undanfarin ár. Heilsa þeirra sem eldri eru hefur einnig farið batnandi. Það eru ríkar kröfur um þátttöku allra í samfélaginu, líka þeirra sem eldri eru. Í dag vill fólk vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Einn hluti af því er auðvitað að fá að vinna, fá að starfa. Þeir verða þá einnig lengur skattþegnar samfélagsins, sem eykur skatttekjur ríkissjóðs. Hvers vegna skyldum við þá ekki hækka þessi mörk? Þetta snýst líka um virðingu fyrir mannlegri reisn. Þetta snýst líka um lífsgæði þessa fólks.

Þessu máli nokkuð skylt, frú forseti, er staða miðaldra fólks á atvinnumarkaði. Einmitt næstkomandi fimmtudag stend ég fyrir sérstakri umræðu um þau málefni. Fólk á aldrinum yfir fimmtugt á oft afar erfitt með að fá vinnu ef það verður fyrir því að missa atvinnu sína. Það er ekki virt viðlits, ekki kallað til viðtals, því er ekki svarað þegar það sækir um vinnu og það lendir í því miklu oftar en yngra fólkið að vera atvinnulaust um mjög langan tíma. Það virðist vera sem kennitalan fæli atvinnurekendur frá því að ráða fólk sem komið er yfir miðjan aldur til vinnu, sem er að mínu viti mikill misskilningur vegna þess að þetta fólk er oft það samviskusamasta, stundvísasta og reynslumesta af þeim sem á atvinnumarkaði eru. Þannig að ég vil í lok ræðu minnar minna á umræðuna sem verður næstkomandi fimmtudag og vonast ég eftir því að í þeim umræðum komi fram tillögur eða hugmyndir um hvernig megi bæta stöðu þessa fólks einnig.