152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og góð andsvör hér á undan. Ég get svo sannarlega tekið undir þá von hv. þingmanns að hér komi góð þjóðaröryggislöggjöf, því það er svo sannarlega tími til þess að hugsa mun meira um þau mál en við höfum gert. Við getum ekki, eins og við erum kannski þekkt fyrir í mörgum hlutum, bara vonað að þetta reddist allt saman þegar kemur að þjóðaröryggi. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að margir af innviðum landa eru í hættu vegna netöryggis. Þannig fara t.d. nær öll fjarskipti á landinu; neyðarfjarskipti, útsendingar sjónvarps og útvarps o.fl., að miklu leyti í gegnum ljósleiðara í dag og því mjög hættulegt ef slíkt virkar ekki. Það er jafnvel þannig að alls konar hlutum í þeim kerfum, þeim innviðum, sem við höfum er í dag stýrt í gegnum fjarskiptanetið okkar, í gegnum ljósleiðarann okkar.

Það var talaði um raforkuöryggi, það var talað um innviði, það var talað um netöryggi — telur hv. þingmaður ekki vera hættu á því, þegar svona grunninnviðir falla í eigu erlendra aðila, að við töpum þeirri stjórn og þeim möguleika að geta haldið netörygginu góðu?