152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör. Ég stend í þeirri trú að við getum unnið saman að því að tryggja þjóðaröryggi og setja góða löggjöf. Ég er ekki viss um að þessi löggjöf sé nógu góð og mun ræða það á eftir.

Mig langaði að tala svolítið um eitt sem hv. þingmaður nefndi og það er hversu mikið við erum í rauninni tengd þegar. Hafandi búið erlendis, t.d. í Kísildalnum í Bandaríkjunum, þá er vert að nefna að þar er t.d. ekki hægt að fá ljósleiðara alls staðar þótt það sé vagga tæknibyltingarinnar. Við lifum við það á Íslandi að farið var í fjárfestingu fyrir 30 árum síðan við að búa til hringtengingu um landið og síðan þá hefur verið fjárfest í því að tengja dreifðari byggðir landsins við ljósleiðara. Það hefur reyndar allt verið gert meðan þetta hefur verið í ríkiseigu. Nú er svo komið að það á að fara að selja þessa grunninnviði, selja þessa ljósleiðara til erlendra aðila sem eru fjárfestar. Fjárfestar hugsa um eitt og það er ágóði. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að sumar af dreifðari byggðunum sem ekki eru þegar tengdar verði ekki tengdar af alla vega þessum fjárfestum, af því það er ekki hagkvæmt. Þá hugsar maður með sjálfum sér: Hvað ef þetta væri vegakerfið okkar sem væri allt saman í eigu einhvers fjárfestingarsjóðs? Væri mikið af dreifðari byggðum Norðausturkjördæmis t.d. tengdar við restina af dreifikerfinu, restina af vegakerfinu með góðum vegum?