152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það glaðnaði dálítið yfir umræðunni hér áðan og ég áttaði mig ekki á hvers vegna en sá svo að allt í einu höfðum við fengið hv. stjórnarliða Bryndísi Haraldsdóttur og Njál Trausta Friðbertsson í umræðuna, fyrstu og einu stjórnarliðana sem hafa tjáð sig í þingmálum dagsins. Við höfum fundað hér síðan klukkan þrjú í dag. Í sex klukkutíma höfum við verið að ræða frumvörp sem eiga að ganga til nefnda og ég man ekki betur en að í þeim sitji fulltrúar frá öllum stjórnarflokkunum — en hvað finnst þeim um þessi mál? Hvað finnst Framsóknarmönnum t.d. um frumvarpið sem við ræðum hér sem var samið í ráðuneyti hæstv. formanns Framsóknarflokksins? Ég veit það ekki, þau mættu ekki. Hvað finnst Vinstri grænum um þetta mál sem greiddu atkvæði gegn einkavæðingu Símans á sínum tíma? Ég veit það ekki, þau hafa ekki verið hérna. Á ekki þjóðin skilið að vita hvað stjórnarflokkunum finnst um þau stóru mál sem við ræðum hér í dag?

Frú forseti. (Forseti hringir.) Stjórnarmeirihlutinn óx allt of mikið í síðustu kosningum og meira að segja eftir kosningarnar líka, en hvar er allt fólkið?