Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

sjúklingatrygging.

211. mál
[18:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Mér finnst þetta ekki bara vera mjög réttmæt spurning heldur mjög góð spurning. Það eru ýmis rök sem mæla með því að samhliða sjúklingatryggingu verði stofnað til lyfjatjónstryggingar hér á landi á sambærilegan hátt og í nágrannalöndum. Það hefur verið skoðað og var rætt, man ég, í tengslum við það bráðabirgðaákvæði sem var sett með viðlíka hætti varðandi Covid-19 til að tryggja skaðabótaréttarlega stöðu. Það hefur jafnframt núna verið sett af stað vinna við að endurskoða heildarlöggjöfina og taka samanburð við aðrar þjóðir, hvernig þær hafa brugðist við. Það er með aðeins ólíkum hætti. Ég held að það þurfi að koma þessu einmitt í þannig farveg að við séum alltaf undir þetta búin. Svo má auðvitað bæta við þá spurningu sem hv. þingmaður ber upp hér, sem er auðvitað stóra spurningin, hvort við hugum ekki að því að láta þetta gilda um bara allar bólusetningar almennt.