155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[18:34]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu til ársins 2040, á þskj. 234, 233. mál. Tillaga til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu er samin í matvælaráðuneytinu og hún var unnin samhliða vinnu í verkefninu Auðlindin okkar. Það var bæði opið, þverfaglegt og gagnsætt verkefni fjölmargra aðila eins og flestum ætti að vera kunnugt um. Drög stefnunnar voru fyrst kynnt í skýrslu Auðlindarinnar okkar, Sjálfbær sjávarútvegur, sem birt var í ágúst 2023. Þá voru drög stefnunnar einnig kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fram í nóvember 2023. Tillagan sem hér er mælt fyrir um hefur verið aðlöguð að annarri stefnumótun, svo sem áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem áhersla er lögð á að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð sjávarútvegs. Sjávarútvegsstefna tekur einnig mið af þingsályktun um matvælastefnu til ársins 2040, nr. 20/153, sem samþykkt var á Alþingi 31. maí á síðasta ári. Það má segja að sú stefna sé regnhlífarstefna fyrir þær stefnur sem settar hafa verið um matvælaframleiðslu á Íslandi. Þar getum við nefnt þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní í fyrra.

Virðulegur forseti. Í þessari tillögu er að finna metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir íslenskan sjávarútveg til ársins 2040 sem snertir umgjörð greinarinnar í heild. Meginmarkmið stefnunnar byggja á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; umhverfi, samfélagi og efnahag. Það var líka rauði þráðurinn í vinnunni í Auðlindinni okkar.

Stefna stjórnvalda er að nytjastofnar sjávar verði hér eftir sem hingað til nýttir á sjálfbæran hátt. Markmiðið er að koma í veg fyrir ofveiði og ólöglegar veiðar og stuðla að ábyrgum fiskveiðum, byggðum á víðtækum rannsóknum á nytjastofnum og vistkerfi hafsins. Verndarsvæði í hafi eru lykilþáttur í að tryggja sjálfbæra nýtingu og hefur Ísland skuldbundið sig til að vernda 30% hafsvæða fyrir árið 2030 í samræmi við OSPAR-samninginn og samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og við leggjum grunninn að þessu hér í dag.

Í stefnunni er lögð áhersla á að vakta umhverfisþætti og meta áhrif loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi sjávar. Reglulegt mat á hagrænum og samfélagslegum áhrifum breytinga á sjávarútveg er nauðsynlegt. Stjórnvöld stefna að 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040 og það er mikilvægt að sjávarútvegur fylgi þeirri stefnu, m.a. með orkuskiptum og betri nýtingu auðlinda.

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú um helgina var samþykkt samkomulag um framtíðina. Meðal einstakra þátta samkomulagsins má nefna matvælaöryggi og verndun líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa og það er sérstaklega áhugavert að í grein 9.e er lögð sérstök áhersla á vernd og endurheimt vistkerfa til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríki skuli efla viðleitni sína til að stöðva og snúa við skógareyðingu og hnignun skóga fyrir árið 2030, auk annarra land- og sjávarvistkerfa, en höfin geyma gríðarlegt magn af kolefni með því að draga til sín stóran hluta af þeim koltvísýringi sem fer út í andrúmsloftið.“

Heimshöfin eru nefnilega stærstu kolefnisbankar jarðar. Þar er að finna einstök vistkerfi sem standa undir áframhaldandi tilvist okkar og lífi á jörðinni. Þangað sækjum við mat og nýtum auðlindir sem þarf að ganga varfærnislega um. Hafið í kringum Ísland er sérstaklega ríkt af bláum skógi sem tekur til strandgróðurs, svo sem þaraskóga, marhálmsengja og þangbreiða sem geyma líka ríkulegt magn gróðurhúsalofttegunda. Þessi eiginleiki hafsins til að fanga kolefni er lykilþáttur í hringrás kolefnis og stuðlar að jafnvægi á milli vistkerfa hafsins og andrúmsloftsins. Með því að vernda 30% af hafsvæðum innan efnahagslögsögu Íslands erum við að taka ábyrg skref í rétta átt og beita virkum aðferðum til að tryggja vöxt og viðgang lífs í hafinu í kringum okkur.

Sjávarútvegur er grundvöllur margra byggða á Íslandi. Mikilvægt er að sjávarútvegurinn stuðli að traustri byggð og atvinnu í kringum landið. Stefna stjórnvalda leggur áherslu á jafnrétti og fæðuöryggi og að matvælaframleiðsla sé örugg og heilnæm. Nýting auðlindanna skal taka mið af jöfnuði óháð kyni, efnahag eða búsetu. Markmiðið er að draga úr losun í framleiðslu matvæla úr hafinu og auka framleiðslu matvæla með lágt kolefnisspor.

Hluti af þeirri framtíðarsýn sem kemur fram í stefnunni er að rannsókna- og nýsköpunarstarf viðhaldi sjálfbærni og auki mælanlega fjölbreytni og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Þá verði Ísland í fremstu röð ríkja þegar kemur að verndun hafsvæða og vistkerfa. Nýting sjávarauðlinda sé sjálfbær og fari fram á grundvelli vistkerfis og varúðarnálgunar þar sem stuðlað er að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni. Þá sé sjávarútvegur leiðandi í loftslagsmálum og, eins og ég sagði áðan, orkuskiptum og verði kolefnishlutlaus. Það er líka lögð áhersla á að haflæsi verði aukið og teknar séu upplýstar og ábyrgar ákvarðanir sem styðja við heilbrigði hafsins og menntun tengd hafi mæti þörfum umhverfis, samfélags og atvinnulífs. Þannig er stefnunni ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg og þannig verði stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.

Í tillögunni er einnig sett fram gildin sjálfbærni, hagkvæmni, fyrirsjáanleiki og gagnsæi og þá eru settar fram áherslur sem ætlað er að tryggja að framtíðarsýn sjávarútvegs til ársins 2040 verði að veruleika. Meginviðfangsefnin eru sjálfbær auðlindanýting, vöktun og viðbrögð við breytingum lífríkisins, aukin þekking á hafinu með rannsóknum og menntun, hagkvæmni og verðmætasköpun, samfélag, jafnrétti, fæðuöryggi og matvælaöryggi. Í greinargerð með stefnunni er nánar gerð grein fyrir hverju og einu þessara viðfangsefna.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vil ég vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir tillögunni. Þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir framtíðarsýn sjávarútvegs til ársins 2040.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu til ársis 2040 verði vísað til síðari umræðu og hv. atvinnuveganefndar.