131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:47]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það eru merkisupplýsingar sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson dregur hér upp að útgerð Jaxlsins skuli vera búin að fjárfesta í tveimur skipum til viðbótar. Þar notuðu menn tækifæri sem skapaðist, tóku mið af þeim aðstæðum sem voru orðnar á Vestfjörðum og í ljós kemur að það reynist vera rekstrargrundvöllur fyrir Jaxlinum. Hann veitir þá þjónustu sem hentar Vestfirðingum og þá um leið útgerð skipsins. Það eru akkúrat þær aðstæður sem skapast eftir 1. desember hringinn í kringum landið sem munu væntanlega laða fram slíka einstaklinga og guð gefi að viti á gott að þessi ágæta útgerð ætli að hugsa lengra en eingöngu til Vestfjarða.

En það breytir ekki því að spyrja verður hvort komi á undan eggið eða hænan. Því skipaferðir þurfa auðvitað að vera reglulegar og áreiðanlegar til þess að neytendur og fyrirtæki notfæri sér þjónustuna. Að slík útgerð eins og Jaxlinn rekur geti staðist, eða einhver annar sem hyggst vera með siglingar hringinn í kringum landið, er mikið komið undir þeim sem gætu notfært sér slíka þjónustu og þá vísa ég enn og aftur til atvinnurekenda sem reka fyrirtæki úti á landsbyggðinni. Þeir þurfa að standa saman og skipuleggja sig þannig að grundvöllur fyrir skip eins og Jaxlinn eða önnur sambærileg verði til staðar og þróunin bendir eindregið til að þarna sé kominn ákveðinn rekstrargrundvöllur fyrir aðra vöru en dagvöruna.