131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Íþróttaáætlun.

11. mál
[17:09]

Flm. (Gunnar Örlygsson) (Fl):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um íþróttaáætlun. Flutningsmenn að tillögunni eru sá sem hér stendur sem og hv. þm. Þuríður Backman, Kristján L. Möller, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa og leggja fram áætlun um markmið og stefnu ríkisins í íþróttamálum til fimm ára. Í áætluninni komi m.a. fram markmið ríkisins hvað varðar eflingu almennings- og afreksíþrótta, hvernig tryggt verði að öll börn hafi jafna möguleika til að stunda íþróttir innan og utan skóla, og gerð grein fyrir fjáröflun til íþróttamála og fjárstuðningi ríkisins við íþróttastarf í landinu og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Að auki verði í áætluninni fjallað um rannsóknir sem ríkið tekur þátt í á sviði íþróttamála.

Áætlunin verði unnin í samstarfi við íþróttahreyfinguna, íþróttakennara og sveitarfélög og lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi.“

Svofelld greinargerð fylgir með ályktuninni, með leyfi forseta:

„Gildi íþrótta fyrir líkamlega og andlega vellíðan fólks er fyrir löngu viðurkennt. Á síðustu árum hefur áhugi almennings á íþróttum vaxið mikið enda kemur sífellt betur í ljós hvernig þær efla þrek og þrótt ungra sem aldinna. Þá hafa sjónir manna einnig beinst að hlut þeirra í forvörnum gegn vímuefnaneyslu og öðru miður góðu líferni. Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir skýr stefnumörkun ríkisins í íþróttamálum til lengri tíma. Flutningsmenn telja að ríkinu beri að setja niður skýra stefnu í íþróttamálum og tryggja þannig vöxt íþróttamála.

Mikilvægi þess að ríkið geri áætlanir yfir fyrirhuguð verk í tilteknum málaflokkum hefur sýnt sig og dugar þar að vísa til jafnólíkra flokka sem jafnréttismála og vegamála þar sem ráðherra yfir hvorum málaflokki er skylt samkvæmt lögum að leggja fram áætlun á hverjum tíma. Með framlagningu áætlana er fólki ekki aðeins gerð grein fyrir hvert ríkið stefnir heldur vekur það einnig umræður. Þá geta einstaklingar og frjáls félagasamtök stuðst við áætlanir ríkisins, t.d. í íþróttum, þegar þeir setja sér markmið. Því er mikilvægt að horft sé til lengri tíma en eins árs í senn eins og algengt er hjá ríkinu þar sem fjárlög hvers árs eru látin ráða stefnunni.

Í 1. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, merkja íþróttir „hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti“. Menntamálaráðherra fer með yfirumsjón íþróttamála að því leyti sem ríkið lætur þau til sín taka og meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði, sbr. 2. og 3. gr. íþróttalaga.

Íþróttahreyfingin hefur unnið þarft og óeigingjarnt starf. Ótal dæmi eru um að sjálfboðaliðar hafi lyft grettistaki í íþróttamálum og sama hvar farið er um landið gegna ungmenna- og íþróttafélögin lykilhlutverki í barna- og unglingastarfi. Það er viðurkennt, m.a. í íþróttalögum, að íþróttastarf utan skóla er fyrst og fremst í höndum einstaklinga og félaga þeirra. Það þýðir þó ekki að ríkið komi ekki að þeim málum og beri þar engar skyldur. Framlög ríkisins til íþróttamála utan skóla eru veruleg en það vantar upp á að þar sé fylgt fastri stefnu. Með íþróttaáætlun ætti að verða auðveldara fyrir ríki, sveitarfélög og íþróttahreyfinguna að setja sér markmið um fé til málaflokksins frá ríkinu og þannig væri tryggt að fjármunir rötuðu þangað sem þeirra er þörf og að sett markmið náist bæði í almennings- og afreksíþróttum.

Í íþróttaáætlun þarf að kveða skýrt á um fjármögnun og styrki ríkisins til íþrótta. Þar verður að sýna fram á að árleg framlög geti tryggt almennan rekstur íþróttahreyfingarinnar auk þess sem gera þarf áætlun yfir styrki til sérsambanda. Einnig er mikilvægt að tekið verði á jöfnun ferðakostnaðar íþróttamanna eftir landsvæðum en í því tilliti má vísa til 135. máls 130. löggjafarþings, sem er tillaga til þingsályktunar um ferðasjóð íþróttafélaga. Þá er æskilegt að skoðaðir verði kostir þess að veita fyrirtækjum sem styrkja íþróttahreyfinguna skattaívilnanir.

Margvíslegt gott starf hefur verið unnið í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar á síðustu árum og ljóst að starf þessara aðila þarf að vera samræmt. Því leggja flutningsmenn áherslu á að ráðherra hafi samráð við sveitarfélög og íþróttahreyfinguna við gerð íþróttaáætlunar.“

Hæstv. forseti. Að mínu mati eru mikil sóknarfæri hérlendis á sviði samfélagslegs hlutverks íþrótta. Fyrir það fyrsta ber að nefna vakningu á sveitarstjórnarstigi samfélagsins þar sem umræða hefur orðið um framlög til iðkunar yngstu þátttakendanna. Hafnarfjörður reið á vaðið með því að greiða æfingagjöld fyrir 10 ára og yngri.

Ég velkist ekki í vafa um að að fáum árum liðnum mun Hafnarfjörður standa framar öðrum sveitarfélögum landsins að því er varðar heilbrigði, þroska og félagslega stöðu þegnanna. Þessi vinna skilar sér til baka hvernig sem á það er litið. Einmitt í þessu viðhorfi glitrar á kjarnann sem endurspeglar mikilvægi þingmálsins sem hér er til umræðu.

Í öðru lagi vil ég nefna að um áramót tók nýr ráðherra við stjórnartaumunum í menntamálaráðuneytinu sem sér um íþróttamál innan ríkisvaldsins. Þar er um að ræða hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem ég hygg að hafi meiri skilning á gildi íþrótta í samfélaginu en flestir forverar hennar hingað til. Það ræðst af þeirri reynslu sem bæði hún og fjölskylda hennar býr yfir á þessum vettvangi.

Í þriðja lagi felast tækifæri í að virkja kraftinn sem fylgir útivist, íþróttum og heilsufarsvakningu landsmanna. Slíkan kraft er ekki hægt að virkja til fulls nema í vel skipulögðu umhverfi íþróttamála. Ég tel að málaflokkurinn íþróttir eigi fullt erindi inn á Alþingi Íslendinga. Ég vil gera umræðuna um íþróttir og gildi þeirra í samfélaginu að pólitísku umræðuefni. Það er afar mikilvægt að 63 háttvirtir alþingismenn Íslendinga skilji allir til hlítar þau sóknarfæri sem almennings- og afreksíþróttum fylgja fyrir íslenska þjóð.

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi sat ég í félagsmálanefnd sem hafði m.a. til meðferðar jafnréttisáætlun. Ég viðurkenni að ég hafði mjög takmarkaða þekkingu á jafnréttismálum áður en ég hóf störf með nefndinni. En eftir að hafa tekið þátt í störfum nefndarinnar um jafnréttisáætlun íslenska ríkisins til næstu ára var ég orðinn nokkuð vel upplýstur um jafnréttismál í landinu. Fyrir vikið skildi ég umræðuna betur en áður og er því sem stjórnmálamaður betur í stakk búinn til að leggja mitt af mörkum til umræðunnar um ókomin ár.

Herra forseti. Við hér á löggjafarsamkundunni tölum svo til aldrei um íþróttir í sölum hins virðulega Alþingis. Með þessu þingmáli er reynt að færa almennt skipulag og fjárframlög til íþrótta inn til löggjafans. Ég tala um fjárframlög, herra forseti, en ekki styrki. Í því sjónarmiði er að finna skilning á gildi íþróttanna, í framlögum til íþrótta getur falist sparnaður fyrir þjóðfélög. Með orðunum „opinber fjárstyrkur“ er helst átt við greiðasemi stjórnmálamanna til ákveðinna dægurmála. Svo er ekki í þessu tilfelli. Ég vil að íþróttir fái þennan stall hjá löggjafanum. Rúmlega 150 þúsund Íslendingar stunda íþróttir á Íslandi í dag. Íþróttir koma okkur öllum við.

Til eru erlendar rannsóknir sem upplýsa um efnahagslegan stuðul íþrótta í hverju samfélagi fyrir sig. Víða í nágrannalöndunum er blásið til sóknar gegn offitu, reykingum, þunglyndi og hreyfingarleysi með öflugu skipulagi og kynningu á íþróttum. Framsýni og fyrirhyggja verða að vera ofan á þegar kemur að stefnu í íþróttamálum. Þjóðríki spara sér umtalsverðar fjárhæðir með því að leggja ofuráherslu á öflugt skipulag og mikla kynningu íþrótta og hollra lifnaðarhátta.

Íslenskir stjórnmálamenn og allir sem fylgjast með þjóðfélagsumræðunni vita um aukin útgjöld hins opinbera til velferðarkerfisins. Stærstan þátt í þessum útgjöldum má rekja til bágrar heilsu þjóðarinnar. Aukin útgjöld innan heilbrigðiskerfisins, stóraukinn lyfjakostnaður, fíkniefnavandi og áfengisdrykkja, fjölgun öryrkja og svo má lengi telja. Deilur um útgjöld hins opinbera til heilbrigðiskerfisins hafa verið daglegt brauð milli stjórnarandstöðu og stjórnarliða.

Ég tel að með fyrirhyggju og framsýni stjórnmálamanna geti íslenska ríkið spornað við mörgum vandamálum í framtíðinni sem tengjast auknum útgjöldum hins opinbera til velferðarkerfisins. Ég tel umræðu um gildi íþrótta á löggjafarsamkundu þjóðarinnar bera vott um gott hyggjuvit, skynsemi og framsýni. Ég trúi ekki öðru en hæstv. menntamálaráðherra sé slíkri umræðu fylgjandi.

Ég efast ekki um að áhugi á íþróttum er til staðar innan ríkisstjórnarinnar. Málið snýst ekki um þann áhuga heldur hvernig hægt er að virkja áhugann og nýta hann, hvernig má upplýsa menn um gildi íþrótta o.s.frv. Það verður einungis gert með því að gera íþróttir að pólitísku umræðuefni á Alþingi. Það er ekki nóg að hæstv. menntamálaráðherra starfi náið með íþróttahreyfingunni. Ég vil sjá alla löggjafarsamkundu þjóðarinnar starfa náið með íþróttahreyfingunni. Sú verður raunin ef þetta þingmál nær fram að ganga.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að með krafti, trú og athygli íslenskra stjórnmálamanna megi virkja kraftinn sem fylgir sjálfboðaliðastarfi þúsunda Íslendinga í íþróttaheiminum. Afraksturinn yrði sá að með tímanum yrði betri heilsa, líkamleg og andleg, raunin hjá íslenskri þjóð. Með því að fela hæstv. menntamálaráðherra það verkefni að leggja fram áætlun um markmið og stefnu ríkisins í íþróttamálum tel ég að stórt skref yrði stigið í þá átt að gera íþróttamál að pólitísku umræðuefni hjá löggjafanum. Sú umræða mun skila sér til samfélagsins í aukinni vitund og auknum skilningi stjórnvalda á gildi almennings- og afreksíþrótta á samfélag okkar.