133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:18]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. fjármálaráðherra að hér hefur liðist árum saman óhóflegt agaleysi í ríkisfjármálum og algerlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra grípi til beinna aðgerða til að taka á því. Ég kalla enn þá eftir því hvaða aðgerðir það eru sem ráðherrann hyggst grípa til.

Hins vegar vildi ég að öðru leyti snúa mér að tekjuhliðinni því að fyrir ári síðan greindi okkur nokkuð á um hvernig tekjuhorfur ríkissjóðs væru fyrir árið í ár. Við stjórnarandstæðingar töldum að þær væru miklu betri en fjármálaráðuneytið hugði og vísuðum til fjárhagsspár Seðlabankans í því efni, sem sýndi fram á miklu meiri spennu en fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir. Ég hlýt að spyrja hvort þetta fjáraukalagafrumvarp sanni ekki, hæstv. fjármálaráðherra, að fullyrðingar okkar í þeim efnum voru réttar, að þjóðhagsspá Seðlabankans væri miklum mun marktækari en þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Spáin sem fjármálaráðuneytið setti fram, og fjármálaráðherra talaði fyrir, um þenslu á þessu ári hefur einfaldlega fengið falleinkunn með því fjáraukalagafrumvarpi sem hér liggur fyrir.