139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni en þetta mál var líka flutt á 138. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta löggjafarþingi, og er nú endurflutt. Fulltrúar úr öllum þingflokkum flytja þetta mál. Það er sú er hér stendur og hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þuríður Backman. Þannig að segja má að þverpólitísk samstaða sé um þetta mál.

Í tillögugreininni er komið inn á efnisinnihald þessarar þingsályktunartillögu. Ég ætla að fá að lesa hana upp, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að koma á reglulegum árlegum heimsóknum í forvarnaskyni sem bjóðist öllum sem eru 75 ára og eldri til að hægt verði að veita þeim þjónustu strax og þurfa þykir svo að þeir geti búið sem lengst heima.“

Málið gengur sem sagt út á það að komið verði á reglubundnum árlegum heimsóknum til eldri borgara 75 ára og eldri til að reyna að koma því þannig fyrir að þeir geti búið sem lengst heima og þurfi síður á stofnanavist að halda en það er að sjálfsögðu markmið allra að eldri borgarar geti búið sem lengst heima við góð skilyrði og er það stefna bæði ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar.

Á seinni árum hefur þjónusta við eldri borgara aukist verulega. Það þarf að auka hana enn frekar. Megináherslan hefur verið lögð á að bæta lífsgæðin til að gefa eldri borgurum færi á að búa sem lengst heima. Nokkrir aðilar koma að þessu í samfélagi okkar, t.d. félagsþjónusta sveitarfélaga sem aðstoðar við þrif og matarinnkaup. Svo er það heimaþjónusta frá heilsugæslustöðvum eða heimahjúkrun sem er á hendi ríkisins. Þessir tveir aðilar eru kannski höfuðleikendur í því máli að tryggja að eldri borgarar geti búið sem lengst heima, fyrir utan að sjálfsögðu eldri borgarana sjálfa.

Ég vil líka nefna að á árinu 2010 er meginþema velferðarnefndar Norðurlandaráðs lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Í nefndinni eiga sæti þingmenn frá öllum Norðurlöndunum, en fyrir Íslands hönd sitja í henni sú er hér stendur og hv. þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, en við erum ásamt fleirum flutningsmenn þessa máls.

Þessi nefnd hefur unnið mjög gott starf í ár að tillögugerð um hvernig hægt væri að bæta lífsgæði eldri borgara og hefur m.a. heimsótt ýmsar stofnanir á Norðurlöndum sem eru að gera framsýna hluti. Ég vil nefna að í sumar var farið bæði til Þrándheims og Bergen til að skoða hvað Norðmenn væru að gera í málefnum eldri borgara, hvað er nýjasta nýtt hjá þeim. Við höfum einnig heimsótt Danmörku þar sem við skoðuðum hjúkrunarheimili sem var rekið á mjög framsýnan hátt og fengum líka upplýsingar um þjónustuna almennt. Þar fengum við einmitt kynningu á þeirri aðferð sem Danir beita að bjóða upp á heimsóknir til eldri borgara 75 ára og eldri tvisvar á ári til að fyrirbyggja að þeir þurfi á stofnanavist að halda of snemma. Sveitarfélögin sjá um þessar heimsóknir. Menn mega afþakka þær, en ég held að flestir þiggi þær, en þá fara aðilar á vegum sveitarfélagsins heim til aldraðra og fara yfir málin með þeim í heimahúsum, skoða aðstæður og meta hvort þurfi að grípa inn í á fljótvirkan hátt, áður en vandamál dúkka upp. Það er gert bæði með því að bjóða upp á æfingar, endurhæfingu, æfingaprógrömm, aðstoð við að fara í verslanir og finna út hvað þurfi að bæta til að hinn aldraði geti verið sem lengst heima og þurfi ekki að fara of snemma inn á stofnun. Þetta hefur tekist mjög vel í Danmörku og er innihaldið í þeirri tillögu sem hér er flutt.

Danir telja að mikið fjármagn hafi sparast við þetta af því að þau úrræði sem boðið er upp á ef eldri borgarar geta ekki lengur verið heima eru dýr, þannig að þetta er líka fjárhagsmál fyrir utan það að það bætir mjög lífsgæði eldri borgara að geta verið heima því langflestir vilja vera heima eins lengi og hægt er.

Ég vil nefna hér hvernig heimaþjónusta okkar og heimahjúkrun er. Það er mjög merkilegt að bera saman tölur frá Íslandi og frá öðrum Norðurlöndum. Í greinargerðinni kemur fram að samkvæmt samanburðartölum OECD þar sem skoðað er hve hátt hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri eru vistaðir í hjúkrunarrýmum utan sjúkrahúsa árið 2007, kemur í ljós að á Íslandi vistast 6% eldri borgara, þ.e. 65 ára og eldri, í hjúkrunarrýmum. Í Noregi vistast 5,5% eldri borgara í hjúkrunarrýmum, 4,6% í Finnlandi og 4,5% í Danmörku. Í Svíþjóð er hlutfallið hærra, eða 6,8% 2006, en það kom reyndar ekki fram í skýrslunni hvert hlutfallið var 2007. Af þessu sést að Ísland er í næstefsta sæti varðandi hlutfall eldri borgara sem vistast í hjúkrunarrýmum. Svíþjóð er aðeins fyrir ofan, en hin löndin eru talsvert fyrir neðan. Ég vek athygli á því að Danmörk er neðst með 4,5% eldri borgara í hjúkrunarrýmum. Það er væntanlega vegna þess að þeir þjónusta þá meira heima. Það tekst betur til hjá þeim. Það er ekki þannig að þjónustan sé almennt slök í Danmörku, hún er almennt mjög góð og hún er veitt á réttu stigi, þ.e. sem mest heima og þá minna inni á hjúkrunarrýmum eða á stofnunum.

Samkvæmt skýrslu OECD frá 2008 um heilbrigðismál á Íslandi þá erum við Íslendingar með hlutfallslega mörg hjúkrunarrými eða langtímarými fyrir 65 ára og eldri, en jafnframt kemur fram að framboð rýma á ákveðnum landsvæðum er ekki í samræmi við þörf. Þannig er líklega offramboð á rýmum á ákveðnum svæðum en skortur á öðrum. Við sem höfum skoðað þessi mál í gegnum árin vitum að á Íslandi eru dæmi um rými sem eru tóm, en samt er borgað fyrir þau. Það var einmitt verið að taka þá umræðu í heilbrigðisþjónustunni, að jafna þetta út, að borga ekki fyrir tóm rými þar sem peningarnir hafa verið notaðir í eitthvað annað, heldur að borga fyrir rétta hluti og að borga líka rétt verð. Sums staðar hefur ekki verið borgað sama verð fyrir hjúkrunarrýmin. Það er reynt að meta hjúkrunarþyngd, en það þarf sem sagt að endurskoða þetta allt og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er að því þessa dagana.

Í OECD-skýrslunni segir að þessi staðreynd komi á óvart í ljósi þess hve íslenska þjóðin er ung, en það megi hugsanlega rekja hátt hlutfall hjúkrunarrýma á Íslandi til þess að framboð á heimaþjónustu sé ekki nægjanlegt og það vanti líka millilausnir svo sem íbúðir fyrir aldraða í nálægð hjúkrunarheimila. Þannig að OECD hefur séð að við erum með of marga inni á hjúkrunarheimilum og að skýringin sé líklega sú að það er of lítil þjónusta heima.

Sú er hér stendur spurði hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra Árna Pál Árnason út í tölulegar staðreyndir í þessu samhengi. Þá kom í ljós að meðallegutími á Íslandi á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými er 3,3 ár, það er meðalveltan, ef maður má nota svo kalt orð í þessu samhengi. Meðallegutími er 3,3 ár í hverju hjúkrunarrými á Íslandi. Þetta er tala sem við ættum að hafa í huga og hún er tiltölulega há miðað við meðaltölur á Norðurlöndunum. Á Norðurlöndunum er meðallegutími í hjúkrunarrými 2 ár. Þetta er talsvert mikill munur, virðulegi forseti. Það er talsverður munur á 2 árum og 3,3 árum. Þetta er eiginlega ótrúlega mikill munur. Af hverju eru aldraðir svona lengi í hjúkrunarrýmunum, svona miklu lengur en á öðrum Norðurlöndum? Svarið hlýtur að vera að þeir séu lagðir inn of snemma. Það er of lítil þjónusta heima, þeir fara of snemma í rýmin og liggja þar af leiðandi of lengi þar.

Á þessu þarf að taka með því að stórauka heimaþjónustu og draga þá á sama tíma úr hjúkrunarrýmafjöldanum. En við höfum eiginlega verið að fara í, ég segi kannski ekki þveröfuga átt, en við höfum ekki aukið heimaþjónustuna nógu mikið heldur lagt of mikla áherslu á dýrustu úrræðin, þ.e. hjúkrunarrýmin. Og enn á að byggja fleiri hjúkrunarrými. Það á að vera raunaukning á Íslandi. Reyndar erum við líka mjög mikið að fara úr fjölbýli í einbýli, sem er gott, það er mjög æskilegt, en við erum líka að fara í raunaukningu. Það svona vekur upp ýmsar spurningar þegar maður sér fjölda rýma og þann langa meðallegutíma sem er hér. Þetta er kerfisgalli sem við þurfum að taka á.

Ég vil líka koma því á framfæri við þessa umræðu af því að það er ekki langur tími sem maður hefur við fyrri umræðu þingsályktunartillögu að það er mjög brýnt að taka á málefnum varðandi þjónustu aldraðra sem fyrst, það er vegna þeirra líffræðilegu staðreynda sem við sjáum fram undan að hlutfall aldraðra er að aukast mjög mikið. Það er gleðilegt, það þýðir lengri líftíma. Ef maður skoðar dánartíðnina hefur hún lækkað í þróunarríkjum um 2% á ári síðan 1950. Þetta þýðir að elsti aldurshópurinn stækkar hlutfallslega mest. Frá 1950 hefur hópur þeirra sem eru eldri en 80 ára fjórfaldast. Konur lifa lengur en karlar. Ef þessi þróun heldur áfram eins og hún hefur gert línulega frá 1950 — það er eiginlega ótrúlegt, það er eins og fólk geti alltaf lifað lengur og lengur — næstu 10 árin eða svo, þá er hægt að búast við því að upp undir helmingur þeirra stúlkna sem fæðast í dag verði 100 ára. Maður trúir þessu varla. Ef þetta heldur svona áfram líkt og allt lítur út fyrir eru helmingslíkur á því að stúlkubörn sem fæðast í dag verði 100 ára. Þetta er ótrúlega há tala.

Auðvitað hafa orðið mjög miklar framfarir, bætt lífskjör, betri lífsstíll, betri heilbrigðisþjónusta, minna drukkið af alkóhóli, minna reykt, betri skurðaðgerðir, betri lyf, bætt meðhöndlun á sykursýki, betri meðhöndlun á hjartasjúkdómum og krabbameinssjúkdómum o.s.frv., þannig að margar breytur valda því að hópur eldri borgara stækkar og rannsóknir sýna að þeir lifa líka góðu lífi, betra lífi. Það er ekki þannig að þessi ár séu erfið og leiðinleg og að allir séu veikir eða eitthvað slíkt. Það hefur líka verið sýnt fram á með allri tækninni og öllum framförunum að þau ár sem hinir eldri fá til viðbótar þeim sem menn lifðu hér áður fyrr eru frekar góð þannig að allir geta hlakkað til efri áranna miðað við þessa almennu þróun.

Svo er líka annað sem ég held að við þurfum að taka til okkar og það er að sum ríki hafa náð því að vera með hátt hlutfall eldri borgara í góðri almennri virkni, ADL heitir þetta, athafnir daglegs lífs. Það er svolítið merkilegt. Af hverju ná sum ríki að halda eldri borgurum í mikilli virkni en ekki önnur? Svíþjóð skarar þar fram úr. Maður veltir því fyrir sér hvað gera Svíar betur en aðrir þannig að gamla fólkið í Svíþjóð er miklu virkara og verður seinna lasið og dettur seinna út úr almennri virkni en aðrir Norðurlandabúar.

Þetta eru allt mjög áhugaverðar spurningar, virðulegur forseti.

Tími minn er á þrotum. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál verði skoðað heildstætt í heilbrigðisnefnd af því að ég held að eftir miklu sé að slægjast, að grípa eins fljótt og hægt er inn í þjónustu fyrir eldri borgara til að halda þeim, af því að þeir vilja það líka, eins lengi heima og hægt er með góðri þjónustu, en ekki að setja þá of snemma á hjúkrunarheimili. Það er engum í hag, hvorki almennum skattborgurum, af því að þetta er dýr þjónusta, né eldri borgurum. Menn eiga að vera sem lengst heima í virkni en sem styst inni á stofnunum.