142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að svara því sem beinist að öðrum þingmálum en því sem við erum að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir því að frumvarp um skyldutryggingu lífeyrisréttinda muni koma fram. Ég tel að það sé fullnægjandi að það mál komi fram í haust en ég taldi varlegast að gera ráð fyrir að það þyrfti að mæla fyrir því á þessu sumarþingi. Eftir samtöl við leiðtoga stjórnarandstöðuflokka, a.m.k. hluta þeirra, tel ég að ekki reynist þörf á að mæla fyrir því máli núna.

Varðandi ráðstafanir í ríkisfjármálum að öðru leyti er að skýrast hvort frekari slík mál muni koma fram. Það sem hefur verið sérstaklega til skoðunar í því efni er að létta af heimilunum í landinu sköttum á borð við þá sem lagðir voru til dæmis á heitavatnsnotkunina. Um málið að öðru leyti vil ég segja að ástæðan fyrir því að það kemur fram núna er, eins og ég gat um í ræðu minni, að ríkisstjórnin vill grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að undirbúa losun haftanna. Ég tel að málið sé mikilvægur liður í því og afnám hafta sé svo mikilvægt mál að við eigum að hraða öllum undirbúningsaðgerðum eins og unnt er.

Það er ekki hægt að vera með neinar yfirlýsingar um það hvenær raunhæft er að höftin verði farin, en við þurfum að minnsta kosti að hafa öll tækin og tólin til að geta látið reyna á afnám haftanna þegar að því kemur.

Varðandi 4. gr. frumvarpsins vil ég bara segja að ég fór vandlega yfir hana áður en hún var lögð hér fram. Hún tók nokkrum breytingum á síðustu stigum og ég vona að hún verði ásamt með öðrum efnisatriðum frumvarpsins tekin til góðrar skoðunar í nefndinni. Mér heyrist að það geti tekist góður samhljómur um afgreiðslu málsins.