143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þm. Ásmund Einar Daðason um niðurskurð þann sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og ekki hvað síst gagnvart landsbyggðinni og hvað veldur þeim leyndarhjúp sem einkennir störf hagræðingarhópsins sem hv. þingmaður er í forsvari fyrir.

Enn fremur vil ég spyrja hv. þingmann út í ályktun framsóknarmanna á kjördæmisþingi í Norðvesturkjördæmi þar sem nær öllum áformum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð var mótmælt. Það var ályktað gegn niðurskurði í vegamálum, gegn niðurskurði í jöfnun húshitunarkostnaðar, gegn niðurskurði til nýsköpunar og skapandi greina, gegn niðurskurði á stuðningi við innanlandsflugið í dreifðum byggðum, gegn niðurskurði í framhalds- og háskólanámi á landsbyggðinni, gegn almennum skattalækkunum, gegn sameiningu heilbrigðisstofnana og gegn virkjunum á kostnað náttúrunnar.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafði uppi mikla gagnrýni á störf síðustu ríkisstjórnar við að reisa efnahag landsins úr rústum frjálshyggjunnar, studdi ekki fjárlögin og gekk úr Vinstri grænum í kjölfarið. Hvernig getur hv. þingmaður með góðri samvisku staðið fyrir þessum mikla niðurskurði á landsbyggðinni þvert á vilja flokksmanna hans í hans eigin kjördæmi? Eða endurtekur sagan sig og hv. þingmaður styður ekki fjárlögin eða gengur hv. þingmaður úr Framsóknarflokknum? Mér finnst að hv. þingmaður skuldi kjósendum sínum og skuldi landsbyggðinni það að svara þessum spurningum og þeirri miklu gagnrýni á fjárlagafrumvarpið sem höfð var uppi af hans eigin flokksmönnum í hans eigin kjördæmi og ég bíð eftir því að fá svör við því.

Enn fremur er ég mjög undrandi yfir því að hæstv. forsætisráðherra hafi ekkert verið hér og verði ekki hér á næstu dögum. Ég lýsi eftir hæstv. forsætisráðherra hér í störfum þingsins.