143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að fá að eiga orðastað við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, í ljósi þess að Vinstri grænum var neitað um gögn þess sem kallað hefur verið hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar. Hópnum var ætlað að leggja til ýmsar aðgerðir til að hagræða og forgangsraða, þ.e. taka og fara yfir stóra liði eins og fjölda stöðugilda, skipulag og rekstur, og leggja til hugsanlegar kerfisbreytingar.

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins stendur að miða skuli við að markmiðinu verði náð á fyrri hluta kjörtímabilsins og afrakstur hópsins sjáist í fjárlögum á hverju ári. Talsmaður hópsins, sem er ekki staddur í þingsal og máli var beint til hér áðan, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sagði í sumar að í haust mundum við horfa til stærri verkefna sem fælu í sér sameiningu einstakra stofnana, flutning verkefna milli stofnana o.s.frv. Í gær kom fram að hópurinn hefur skilað tillögum til ráðherranefndar um ríkisfjármál sem nema tugum.

Upplýsingarnar eru lykill að því að við sem hér sitjum getum tekið réttar og góðar ákvarðanir og á réttum forsendum. Mér þykir það því með ólíkindum að forsætisráðuneytið hafi ákveðið að neita þingflokki VG um þessi gögn. Nefndin er með formlegt erindisbréf og á því að halda fundargerðir. Um leið og gögn fara frá henni með formlegum hætti hljóta þau að lúta upplýsingalögum.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hefur sagt að til greina komi að hagræðingarhópurinn sem hún situr í finni sparnaðarleiðir til að koma til móts við sjúkrahúsin. Þar erum við ekki að tala um neina smáaura auk þess sem komið hefur fram í umræðunni af hálfu stjórnarliða að þeir sjái nú að það vanti 3 milljarða í rekstur Landspítalans.

Ég hef ekki reynt hv. formann fjárlaganefndar að öðru en sanngirni í fjárlaganefnd. Hún hefur raunar sagt að ekkert það sem hagræðingarhópurinn fjalli um megi ekki líta (Forseti hringir.) dagsins ljós og ég trúi því ekki öðru en að (Forseti hringir.) hún beiti sér fyrir því að gögnin verði afhent.