143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég aðeins að tala um evrur.

Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013, um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn, um frjálsa fjármagnsflutninga, og fella inn í samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 924/2009/EB, frá 16. september 2009, um greiðslur yfir landamæri í bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð nr. 2560/2001/EB, og nr. 260/2012, frá 14. mars 2012, um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð 924/2009/EB.

Markmiðið með reglugerðunum er veita borgurum og fyrirtækjum örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði með því að stuðla að samræmdri veitingu greiðsluþjónustu á EES-svæðinu og tryggja að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri ríkja innan EES séu hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna í evrum innan landa.

Ljóst er að Ísland getur að óbreyttu ekki uppfyllt öll skilyrði reglugerðanna vegna gjaldeyrishaftanna, sér í lagi hvað varðar skilyrði um svokallaðan aðgengileika. Á meðan höftin eru til staðar gildir undanþága sú sem Ísland nýtur samkvæmt 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins, en sú undanþága gengur framar öðrum ákvæðum EES-samningsins.

Breyta þarf lögum nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum, sem innleiðir eldri reglugerð til þess að innleiða nýju reglugerðirnar sem koma í hennar stað. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram lagafrumvarp til innleiðingar á reglugerðunum á yfirstandandi þingi. Ekki er gert ráð fyrir því að lagabreytingarnar muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felast svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.