143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þyrfti aðra ræðu til þess að útskýra það fyrir hv. þm. Óla Birni Kárasyni að ég tel ekki að aðild að Evrópusambandinu leysi öll vandamál, fjarri því. Ég tel hins vegar að það sé besta leiðin til þess að ná sem bestri lausn, en það er ekki fullkomin lausn, ég er algjörlega klár á því. Það hefur líka orðið mér æ skýrara. Ég vil halda því til haga. Um það þyrfti ég að halda töluvert langa ræðu til þess að skýra út fyrir honum af hverju ég tel að ESB-aðild sé besta nálgunin, bæði til þess að leysa ýmiss konar núverandi vandamál sem við glímum við, en líka til þess að tryggja okkur sem farsælasta framtíð.

Hv. þingmaður hefur þegar kvartað undan því í dag að ég taki upp allan tíma þingsins með ræðuhöldum svo ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að stilla því í hóf en bendi á upphafsorð í síðasta andsvari hv. þingmanns þegar hann sagði: Ég hóf þessa umræðu. Ræðuhöld mín í dag hafa öll einungis verið vakin af glöggum athugasemdum og ræðum hv. þingmanns sem hóf umræðuna, það var hans val. (Gripið fram í.) Eins og hv. þingmaður veit er auðvelt að dingla fyrir framan mig feitum maðki, ég stekk alltaf á hann.