143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

35. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og málefnalega og góða spurningu. Þetta er það sem menn eru oft hræddir um og er ástæðan fyrir því að stigið er varlega til jarðar. En ef við tökum bæði tolla, vörugjöld og virðisauka þá erum við ekki bara að tala um innfluttar vörur. Ef verslun eykst á landinu — segjum að það verði minna um að fólk fari til útlanda til að versla og það kaupi frekar hér á landi, og ef við gefum okkur að útlendingarnir sem hingað koma, ferðamenn, en þeim fer fjölgandi, versli meira hér — þá mun það nýtast okkur meðal annars varðandi viðskiptajöfnuðinn. Því að þetta snýst ekki bara um tollana. Vörugjöldin leggjast jafnt á vörur sem eru framleiddar innan lands og þær sem eru fluttar inn. Það eru hins vegar bara tollarnir, sem er minnsti þátturinn í þessu, sem leggjast á innfluttar vörur.

Síðan er náttúrlega ákveðinn virðisauki af því þegar fólk höndlar með erlendar vörur á Íslandi. Ég man það ekki í fljótu bragði, og sé nú eftir því að hafa ekki skoðað það, ég hefði átt að gera það, hver meðalupphæðin er sem Íslendingurinn notar, það er hægt að sjá það á notkun kreditkorta í útlöndum, en sú upphæð er gríðarlega há. Ef við gætum minnkað það hefði það svo sannarlega líka jákvæð áhrif. Þannig að myndin er aðeins flóknari en svo að við séum bara að lækka gjöld á innfluttar vörur þó að svo sannarlega sé það sérstakt markmið.