145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

hæfnispróf í skólakerfinu.

[15:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég horfði á splunkunýja heimildarmynd í síðustu viku þar sem viðtal var við skólastjórnanda í Finnlandi. Eitt af því sem sló mig einmitt við það sem hann sagði, spurður að því hvers vegna svona vel gengi hjá Finnum, var að fullkomið traust ríkti á milli mismunandi stiga sem hafa með skólakerfið að gera. Mér finnst hugmyndir ráðherra einhvern veginn vera alveg öfugar við það.

Mig langar að spyrja ráðherra: Af hverju treystir ráðherra ekki námsmati grunnskólanna sem byggir á langtímahæfni? Inntökupróf tekur eingöngu á yfirborðinu. Ég veit að þessar tillögur ráðherra hafa valdið miklum áhyggjum hjá nemendum sem eru í 10. bekk núna.

Ég verð að segja að mér finnst ábyrgðarlaust að koma fram með slíkar tillögur án þess að búið sé að útfæra þær og ræða almennilega við skólastjórnendur.