148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Að ná einungis rúmlega 2% breytingu á fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar, sem Vinstri grænir útmáluðu sem hægri sveltistefnu, fyrir nokkrum vikum er skelfilegur árangur. Það er engin viðbót í barnabætur, engar viðbætur í vaxtabætur, engin viðbót í fæðingarorlof, engin viðbót í íbúðamálin. Meiri hluti fjárlaganefndar setur 0 kr. í Landspítalann, og heilbrigðisstofnanir úti á landi fá einungis helminginn af því sem þær óskuðu eftir á fundi nefndarinnar, bara til að halda starfseminni óbreyttri. Vonbrigðin eru gríðarleg og það verður fróðlegt að fylgjast með hvort Vinstri grænir muni fylgja þessu eftir með prósentuhækkun vikulega hér eftir. [Hlátur í þingsal.] Það er alveg augljóst að barnafólk, lágtekjufólk og millitekjufólk er illa svikið af þessu fyrsta fjárlagafrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur.