149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem auk mín standa að aðrir hv. þingmenn Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra að koma á fót ráðgjafarstofu innflytjenda, þar með talið að leggja til viðeigandi lagabreytingar. Hlutverk stofunnar verði að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðgjafarstofan verði jafnframt vettvangur fyrir félagslegan og sálfélagslegan stuðning til að renna styrkari stoðum undir árangursríka samfélagsþátttöku á Íslandi. Ráðherra hafi náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og leiðandi sveitarfélög á sviði innflytjendamála um uppbyggingu og rekstur ráðgjafarstofunnar, Rauða krossinn, verkalýðshreyfinguna og önnur félagasamtök og stofnanir sem koma að málefninu. Ráðherra kynni Alþingi áætlun um verkefnið eigi síðar en 1. maí 2019.

Virðulegi forseti. Tildrög þessa máls eru ekki síst ábendingar sem hafa komið fram í þessum málaflokki í skýrslum sem vitnað er til í greinargerðinni með málinu, t.d. skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi, skýrslu velferðarráðuneytisins um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda og skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um greiningu á þjónustu við flóttafólk. Svo get ég nefnt hér stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Það hefur komið fram að þrátt fyrir að ýmislegt sé vel gert og ýmsar stofnanir vel reknar sem sinni ágætlega þessum málum sé þjónustan dálítið brotakennd. Þess vegna er lögð til meiri samræming í þessum málaflokki í mörgum þeirra skýrslna sem ég vísaði til og stefnum við að því að komið verði á fót aðstöðu þar sem innflytjendur eru flestir, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er farin sú leið að ráðherra verði falið að stofna þessa nýju ráðgjafarstofu.

Í greinargerðinni kemur einmitt fram að markmið þessarar þingsályktunartillögu sé að koma á fót miðlægri upplýsingastofu þar sem innflytjendur geti sótt allar þær upplýsingar um þjónustu, réttindi og skyldur sem auðvelda þeim að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Með tillögunni er gert ráð fyrir að ráðgjafarstofa innflytjenda verði samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga, þar koma líka inn í aðrar stofnanir sem og félagasamtök, og þar geti innflytjendur sótt sér upplýsingar þvert á sveitarfélög. Með innflytjendum er átt við íbúa á Íslandi sem fæddir eru erlendis, óháð ríkisborgararétti, og nær hugtakið einnig yfir flóttamenn, sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Virðulegi forseti. Það er stórt skref hjá öllum að flytjast til annars lands og hefja þar nýtt líf. Ýmsar ástæður búa að baki því skrefi, en hvort sem það er stigið af sjálfsdáðum eða af illri nauðsyn er öllum í hag að njóta sem bestrar leiðsagnar um hið nýja samfélag. Það gerir breytingar á högum fólks léttari og stuðlar um leið að því að fólk verður mun fyrr virkt í samfélaginu og getur fyrr farið að gefa af sér. Því er mikilvægt að allir geti á einum stað sótt sér upplýsingar um hið nýja samfélag, hvaða réttindi og þjónusta bjóðist þar en einnig um þær skyldur sem íbúar þurfa að uppfylla. Ráðgjafarstofa innflytjenda yrði slíkur staður þar sem nálgast mætti allar nauðsynlegar upplýsingar og ráðgjöf undir sama þaki. Á ensku hefur slíkt verið kallað, með leyfi forseta, „first-stop-shop“, þ.e. sá staður þar sem fólk getur komið og fengið leiðsögn um allt sem að réttindum og skyldum þess lýtur.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni er farið yfir fordæmi af svipaðri starfsemi víða um heim, t.d. í Lissabon og víðar í Portúgal, í Kanada og Danmörku. Víða er þessi starfsemi víðtækari en hér er lagt til og nær til ýmissa verkefna sem hér á landi heyra undir Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins.

Eins og ég kom inn á fyrr í máli mínu hafa umfangsmiklar úttektir og skýrslur verið gerðar á stöðu og málefnum flóttafólks og innflytjenda og talað er um að betur þurfi að samræma þjónustuna, það þurfi að fá meiri fókus á hvernig þessi mál eru unnin þannig að það sé skýrara fyrir fólkið sem notar þessa þjónustu hvert það á að leita til að nálgast þær upplýsingar. Það er það sem öllu máli skiptir, þ.e. fólkið sem mun nota þjónustuna.

Ýmislegt í þessum skýrslum gefur tilefni til að álykta að þörf sé á enn frekari samræmingu í þessum málaflokki en hér er lagt til. Þessi mál eru á höndum tveggja ráðuneyta og ég held að það sé þarft verk í framhaldinu að setjast yfir málaflokkinn og reyna að finna hvaða leið er best til að hafa þetta allt sem skýrast, hafa flækjustigið sem minnst.

Ég vitnaði í skýrslu sem er unnin fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið þar sem segir um þær tillögur sem lagðar eru þar fram að komið verði á fót stofnun útlendinga- og innflytjendamála til að, með leyfi forseta, „samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna“.

Það er mikilvægt að horfa til hinna Norðurlandanna og þess fordæmis sem sett er í aðlögun umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna, ekki síst Rauða krossins.

Ég get upplýst að í aðdraganda framlagningar þessa máls ræddi ég einmitt við fjölmarga aðila sem koma að þessum málaflokki, þar með talið Rauða krossinn. Ég ræddi við aðila hjá Reykjavíkurborg og kynnti hugmyndina fyrir fólki úr verkalýðshreyfingunni af því að þar á bæ er unnið mikið og gott starf þegar kemur að því að veita innflytjendum upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Þá hafa margir aðilar haft samband við mig eftir að fregnaðist af þessu máli og verið jákvæðir í garð þess.

Meðal þeirra aðila sem ég ræddi við áður en ég lagði málið fram var Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum því að þar er unnið þarft og gott starf í þessum málum. Ýmislegt er gert þar sem er komið inn á hér sem verkefni þeirrar ráðgjafarstofu sem hér er lögð til. Í greinargerðinni er farið yfir það hver verkefni Fjölmenningarseturs eru. Þegar ég vísaði áðan til þess að fara þyrfti jafnvel í einhverjar lagabreytingar horfði ég ekki síst til þess að horfa þarf til þeirra verkefna sem þar eru unnin, hjá Fjölmenningarsetri og víðar. Hver endanleg niðurstaðan af þeirri vinnu verður ef Alþingi samþykkir að fela ráðherra verkið veit ég ekki en ég treysti bæði hv. nefnd sem þetta mál fer til og svo ráðherra til að vinna úr því. Ég veit bara að samræmingin þarf að vera og sérstaklega þegar kemur að Fjölmenningarsetri.

Í þeim efnum er ýmislegt mögulegt sem ég nefni af handahófi án þess að leggja neitt til. Þetta getur runnið saman sem ein stofnun, verið með starfsemi bæði þar vestra sem Fjölmenningarsetur er núna og á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mætti breyta lögum um Fjölmenningarsetur og víkka út starfsemi þess, það væri með útibú á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv. Í það minnsta er mikilvægt að setjast yfir, samræma og koma á þessari beinskeyttu þjónustu sem kallað er eftir í öllum þeim skýrslum sem ég vísa hér til.

Það er nefnilega mikilvægt að horfa til þess að innflytjendur eru flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að í sumum tilvikum skipti staðsetning ekki öllu máli getur hún gert það í þessu tilviki og mikilvægt er að hér sé starfsemi af þessu tagi þannig að fólk geti einfaldlega gengið inn af götunni. Hins vegar er mikilvægt að þessari ráðgjafarstofu verði gert kleift að taka á móti og sinna fólki sem leitar til hennar hvaðanæva að. Þess vegna verður að tryggja frá upphafi að aðstaða til fjarfundar sé almennileg og í gegnum internetið svokallaða, sem er víst ekki bóla eftir allt saman.

Það er mikilvægt við þessa ráðgjafarstofu, og það er hugsunin sem mér finnst mikilvægt að komi hér fram, að þarna verði samstarf þvert á stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög, að þetta samstarf verði við þær stofnanir sem að þessu máli koma. Ég hef sérstaklega tiltekið Fjölmenningarsetur en það þarf líka samstarf við aðila eins og Rauða krossinn, Mími – símenntun sem er á vegum verkalýðsfélaganna og verkalýðshreyfinguna sjálfa.

Hvort sem fólk er komið til að setjast að til frambúðar eða einfaldlega vinna um hríð og leggja þannig sitt til samfélagsins getum við einfaldað því að setjast hér að í þann tíma sem það hyggst vera hér og það er gott. Því meira sem flækjustigið er og því meira sem fólk þarf að fara frá einum stað til annars og svo enn annars er ekki skynsamlegt, hvorki gagnvart því að hafa skilvirknina sem mesta né gagnvart líðan þess fólks sem eftir þessu leitar.

Virðulegur forseti. Ráðherra er því falið að hafa náið samstarf við alla þá aðila sem ég hef tínt hér til. Ég óska sérstaklega eftir því að hv. velferðarnefnd, sem ég mun leggja til að fái málið til umsagnar, vinni áfram með allar þær spurningar sem ég hef spurt, t.d. um samstarf við Fjölmenningarsetur og fleiri aðila, hvort ekki ættu einhverjir fleiri að koma að þessu og hvernig rekstrarfyrirkomulag slíkrar stofnunar ætti að vera. Í greinargerðinni er vísað til Bjarkarhlíðar sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og starfrækt í Reykjavík. Þar er öll þjónusta fyrir þolendur ofbeldis undir sama þaki. Ríki og Reykjavíkurborg hafa samstarf um reksturinn.

Mér finnst allt koma til greina í þeirri skoðun. Þetta þarf ekkert endilega að vera rekið af ríki eða sveitarfélagi, kannski er Rauði krossinn bestur til að reka svona, eða Fjölmenningarsetur eins og ég nefndi áðan.

Það er óvíst hve mikill kostnaður hlýst af stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda og hversu mikil áhrifin yrðu á ríkissjóð. Í greinargerðinni er rætt um að kostnaður við ríkisstofnun með fimm starfsmenn sé um 55 millj. kr. en ég bið okkur öll að hafa í huga að það er algjörlega óvíst hver kostnaðurinn yrði vegna þess að hluta af þeim verkefnum sem tiltekin eru í greinargerðinni er þegar verið að sinna annars staðar. Samlegðaráhrifin af því munu gera það að verkum að það er erfitt að átta sig á kostnaðinum. Sannast sagna held ég að hann yrði á endanum ekki mikill af því að verkefnunum er sinnt víða og því fleiri sem koma að þeim með þekkingu sína og sérfræðikunnáttu og setja þetta allt á þennan sama stað, því betra verður það og því meiri verða samlegðaráhrifin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni umræðunni.