149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[18:13]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda og ríkið komi henni á fót. Hlutverk hennar verði, með leyfi forseta:

„… að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðgjafarstofan verði jafnframt vettvangur fyrir félagslegan og sálfélagslegan stuðning til að renna styrkari stoðum undir árangursríka samfélagsþátttöku á Íslandi.“

Það vill svo til að á Ísafirði er Fjölmenningarsetur sem fór af stað árið 2001 að frumkvæði Vestfirðinga. Á Alþingi var samþykkt þingsályktunartillaga sem kom þessu af stað og í henni stóð:

„Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.“

Á þessum nótum eru verkefni Fjölmenningarseturs byggð. Þar er unnið að upplýsingum til stjórnvalda og þá sérstaklega til sveitarfélaga sem eru oft sú stofnun sem innflytjendur leita fyrst til og svo líka til annarra stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga í tengslum við málefni innflytjenda, auk þess að halda innflytjendum upplýstum um réttindi þeirra og skyldur.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann Kolbein Óttarsson Proppé hvort hann haldi að Fjölmenningarsetur geti ekki valdið þessu hlutverki algjörlega og hvort það sé virkilega þörf fyrir þessa stofnun. Og ef svo er, hvort ekki væri hægt að stofna bara útibú á höfuðborgarsvæðinu.

Svo kem ég inn á annan þátt í síðari ræðu.