150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

betrun fanga.

24. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um betrun fanga. Flutningsmenn auk mín eru þau Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðjón S. Brjánsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen og Ari Trausti Guðmundsson. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra í samráði við félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun heildstæðrar betrunarstefnu í fangelsismálakerfinu, þar með talið að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og fjármagn til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðar- og vistunaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2020. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Þingsályktunartillagan hefur í tvígang verið lögð fram áður án þess að hafa náð fram að ganga og hún er lögð núna fram að nýju með minni háttar breytingum. Hún felur í sér í stuttu máli að fela ofangreindum ráðherrum mótun heildstæðrar betrunarstefnu í fangelsismálakerfinu.

Markmið betrunar er að auka færni og lífsgæði fanga og sporna við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi. Með sálfræðilegri og félagslegri meðferð í fangelsunum, menntun, starfsþjálfun eða vinnu og styrkingu tengsla við fjölskyldu er leitast við að hjálpa föngum að aðlagast samfélaginu að lokinni afplánun.

Í gildandi lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, kemur fram að lögunum sé ætlað að stuðla að farsælli betrun fanga og aðlögun þeirra að samfélaginu. Heildstæð betrunarstefna er þó ekki til staðar og óljóst að hvaða marki lögin stuðla að betrun, enda er aðgengi að námi og heilbrigðisþjónustu afar mismunandi á milli fangelsa og meðferðaráætlun einungis aðgengileg þeim föngum sem Fangelsismálastofnun telur nauðsynlegt að hljóti meðferð.

Til þess að tryggja árangur fangelsisvistar og fækka ítrekuðum brotum er mikilvægt að tekið sé á móti öllum föngum með greiningu á stöðu þeirra og þörfum og áætlun gerð um meðferð innan fangelsis. Slík áætlun miði að því að hjálpa föngum að verða virkir samfélagsþegnar að afplánun lokinni. Rétt er að geta þess að í eldri lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, kom fram að Fangelsismálastofnun skyldi í samvinnu við fanga gera meðferðar- og vistunaráætlun. Með lögum nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, var skyldan afnumin nema, eins og að framan greinir, í tilvikum þar sem meðferðaráætlun telst nauðsynleg að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum kom fram að ekki hefði gengið eftir að setja meðferðaráætlun fyrir alla fanga þar sem Fangelsismálastofnun hefði ekki fengið fjármagn til að sinna verkefninu. Það er kannski dálítið dæmigert fyrir það hvernig við störfum stundum. Sett voru fram háleit og mikilvæg markmið um betrun fanga en því fylgdi aldrei nauðsynlegt fjármagn og þá var brugðið til þess ráðs að afnema einfaldlega skylduna í lögum í stað þess að fjármagna verkefnið. Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er einmitt að reyna að snúa aftur til upprunalegrar áætlunar og að mótuð verði heildstæð stefna, betrunaráætlun, og ekki er síður mikilvægt að slíkri stefnu verði þá tryggt nauðsynlegt fjármagn.

Það er gerð ágætlega grein fyrir helstu röksemdum að baki þessarar þingsályktunartillögu í greinargerð sem henni fylgir. Það ber þó að velta upp nokkrum þáttum. Upplýsingar um endurkomutíðni fanga eru ófullnægjandi og sérfræðinga greinir nokkuð á um það hvort raunin sé sú, eins og opinber gögn benda til, að endurkomutíðni hér sé lág í samanburði við önnur Norðurlönd. Þess ber að geta í því samhengi að við erum að vinna með afar gömul gögn. Það er mjög mikilvægt að við metum á ný endurkomutíðni fanga með tilliti til lengra viðmiðunartímabils en hingað til hefur verið stuðst við.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga þegar horft er til inntaks þessarar tillögu, að tryggt sé nauðsynlegt fjármagn til betrunaráætlunar, hver kostnaður samfélagsins og einstaklinganna sem í hlut eiga er af þeirri refsivist sem við ástundum í dag í stað markvissrar betrunaráætlunar. Það er vel þekkt að fangelsi og sérstaklega fangelsi eins og Litla-Hraun verða kannski fremur til þess að herða afbrotamenn en að betra. Þaðan komi einstaklingar jafnvel í umtalsvert verri stöðu en þegar þeir fóru þangað inn. Þetta er auðvitað gríðarlegt tjón fyrir samfélagið bæði vegna áframhaldandi afbrota, fórnarlamba þeirra afbrota en ekki síður þeirrar staðreyndar að eftir sitja einstaklingar óvirkir í samfélaginu og jafnvel þvingaðir á braut afbrota aftur.

Auðvitað verður að hafa í huga erfiða stöðu einstaklinga sem eru að ljúka afplánun. Það getur verið mjög snúið að fá atvinnu, getur verið mjög snúið að fá viðeigandi húsnæði og því er gríðarlega mikilvægt að markviss betrunaráætlun hugi að því að byggja upp viðkomandi einstakling strax þegar afplánun hefst og undirbúi í skipulögðu ferli endurkomu hans inn í samfélagið sem virks samfélagsþegns. Þess vegna held ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og ég vona svo sannarlega að það fái góðan stuðning í þinginu, fái framgang að þessu sinni og ekki síður að stjórnvöld axli ábyrgð í þessu máli. Núverandi fyrirkomulag og ástand er óásættanlegt. Við erum ekki að reka betrunarstefnu eins og við tölum um að við gerum. Þvert á móti á það miklu meira skylt við hreina refsistefnu. Frá þeirri braut verðum við að snúa.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að þessu sinni og legg til að málinu verði vísað til hæstv. velferðarnefndar, geri ég ráð fyrir, forseti, nema það verði leiðrétt, og mun það þá rétt verða.

(Forseti (BHar): Það er tillaga frá þingfundaskrifstofu um að málið fari til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd.)