150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

hagsmunafulltrúi aldraðra.

69. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær mælti hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fyrir tillögu um að settur yrði saman níu manna hópur til að halda utan um hagsmunamál aldraðra. Við vorum í þessum ræðustóli í gær að tala um vanlíðan, þunglyndi, depurð, einangrun og fjölgun eldri borgara og hversu margir þeirra virkilega eiga erfitt. Flokkur fólksins hefur áður lagt fram tillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra og mér þætti góður bragur að því ef við gætum tekið saman höndum með flutningsmönnum tillögunnar frá í gær. Þeir bera hag aldraðra fyrir brjósti ekki síður en Flokkur fólksins gerir. Útkoman yrði vonandi fullorðna fólkinu í hag. Ég er flutningsmaður að þessari tillögu um hagsmunafulltrúa og með mér á tillögunni er Guðmundur Ingi Kristinsson. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.“

Í greinargerð segir m.a., með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 149. löggjafarþingi (825. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lögð fram að nýju óbreytt.“

Að hún hafi ekki hlotið afgreiðslu þýðir einfaldlega að hún var svæfð í nefnd og kom aldrei fyrir þingheim aftur til að greiða um hana atkvæði eða ræða hana frekar. Staðreyndin er sú að allt of mörg hagsmunamál eru svæfð í nefnd, sitja þar eftir, koma ekki inn í þingsal til frekari umræðu, komast ekki til atkvæðagreiðslu. Mjög mörg þessara mála eru þannig vaxin að það er vondur málstaður að verja fyrir hvaða stjórnmálamann sem er, hvaða ríkisstjórn sem er, að ætla að reyna að hamla eða greiða atkvæði gegn þeim því að þau eru virkilega til hagsbóta fyrir þjóðfélag okkar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu. Í greinargerð segir:

„Með þessari tillögu er lagt til að fela félags- og barnamálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og þeim fjölgar og aldraðir eru misjafnlega færir um að gæta eigin réttar og hagsmuna. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim. Hagsmunafulltrúa aldraðra ber að hafa frumkvæðiseftirlit“ — og takið eftir, þetta skiptir verulegu máli, embætti hans skal vera það öflugt og það máttugt að hann geti haft frumkvæðiseftirlit — „með persónulegum högum allra eldri borgara, sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, koma í veg fyrir næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra.“

Hver man ekki eftir skýrslunni sem kom út í fyrra, ritgerð sem skrifuð var um vannæringu eldri borgara? Hugsið ykkur, að fullorðna fólkið okkar skuli vera í þeirri stöðu, einangrað heima hjá sér, að það í rauninni, kannski vegna veikinda, kannski vegna hálku, kannski vegna þess að það treystir sér ekki út í búð, bara sveltur heima. 13 eldri borgarar sem heimsóttir voru eftir að þeir komu heim í sína sjálfstæða búsetu, heim til sín aftur eftir að hafa verið á spítala, voru allir með næringarskort. Það er okkur til háborinnar skammar, vægast sagt, ef við getum ekki eða leggjum ekki í frekari vegferð til að koma í veg fyrir það sem nú er að gerast úti í samfélaginu. Okkur er í rauninni öllum fullkunnugt um það en stjórnvöld snúa að því blinda auganu.

Í greinargerðinni segir að hagsmunafulltrúi skuli jafnframt gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni þeirra.

Sambærilegar tillögur um fulltrúa sem leiðbeini öldruðum og haldi utan um málefni þeirra hafa oft komið fram, á 126., 144. og 145. löggjafarþingi. Það hét þá kannski umboðsmaður aldraðra eða eitthvað slíkt. Við ákváðum að heitið yrði hagsmunafulltrúi aldraðra en ekki umboðsmaður eins og ákveðin tilhneiging er til; umboðsmaður barna, umboðsmaður Alþingis, til að vera viss um að við greindum betur á milli þessara hugtaka og það væri auðveldara fyrir alla að skilja muninn, því að þetta er ekki það sama.

Okkur hefur þótt skorta á upplýsingaflæði um réttindi: Hver eru réttindi mín? Þegar aldraður einstaklingur situr heima og fær útborgað frá Tryggingastofnun eða er vísað hingað og þangað og hann fer á milli Heródesar og Pílatusar til að reyna að fá úrlausn sinna mála — þetta er ekki á fullorðið fólk leggjandi, að þurfa að hlaupa á milli og vera vísað frá einum til annars. Hagsmunafulltrúi aldraðra er í rauninni svarið. Hann getur haldið utan um þetta. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson mælti fyrir tillögu í gær, eins og ég talaði um áður, um að mynda starfshóp sem gerði úttekt og héldi utan um og rannsakaði stöðu eldri borgara úti í samfélaginu, þunglyndi, einangrun og jafnvel aðbúnað almennt og ég sá að þetta myndi augljóslega haldast í hendur og vinna saman og ég trúi því. Ég trúi því virkilega. Ég er alltaf svona bjartsýn. Í hvert skipti sem ég kem hingað og mæli fyrir góðum málum sem virkilega skipta land og lýð máli hef ég fulla trú á því að við alþingismenn yfir höfuð, hvar í flokki sem við stöndum, séum bara virkilega með fallegt hjarta og ef þess er nokkur kostur, án þess að setja þjóðarskútuna á hliðina, þá trúi ég því að við viljum og munum koma til móts við fólkið.