151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

græn utanríkisstefna.

33. mál
[17:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er skemmst frá því að segja að þetta er mjög gott mál. Loftslagsváin er stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir, eins og fram kemur í orðum hv. framsögukonu. Framtíð okkar á jörðinni veltur einfaldlega á því að við tökum höndum saman þvert á landamæri og ráðumst í róttækar breytingar á framleiðslu og á lifnaðarháttum. Við Íslendingar erum rík þjóð og búum yfir góðum og endurnýjanlegum auðlindum og hugviti og við höfum einfaldlega skyldum að gegna við heimsbyggðina og komandi kynslóðir.

Ríkustu 10% heimsbyggðarinnar eru ábyrg fyrir um helming allrar losunar, en afleiðingarnar koma hins vegar harðast niður á fátækustu þjóðum heimsins. Þannig að baráttan gegn loftslagshlýnun er óæskilegur þáttur í baráttunni gegn ójöfnuði á heimsvísu og verður aldrei unnin nema með þéttu alþjóðlegu samstarfi. Þess vegna veldur það ákveðnum vonbrigðum að Ísland setji sér of metnaðarlítil markmið þegar kemur að því draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Og þrátt fyrir fögur orð hæstv. forsætisráðherra um græna byltingu nema framlög Íslands til loftslagsaðgerða minna en 1% af vergri landsframleiðslu samkvæmt fjárlögum.

Í leið Samfylkingarinnar, sem við köllum Ábyrgu leiðina, efnahagsáætlun flokksins 2021, leggjum við áherslu á að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði endurskoðuð þannig að a.m.k. 55% af samdrætti í losun á gróðurhúsalofttegundum verði fyrir árið 2030 og að þau markmið verði bundin í lög. Við viljum líka skerpa á sjálfstæði og aðhaldshlutverki loftslagsráðs og efla stjórnsýslu loftslagsmála með miðlægri ráðuneytisskrifstofu sem hefur fjárstyrk og mannafla til að sinna nauðsynlegri greiningarvinnu. Við leggjum auk þess til grænan fjárfestingarsjóð í eigu hins opinbera sem styður við uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi og græns hátækniiðnaðar, við viljum skipulega uppbyggingu iðngarða, hröðun orkuskipta, sérstakt skógræktarátak og fleira og fleira.

En þetta var útúrdúr vegna þess að við leysum ekki loftslagsvanda ein og sér og ekki innan landsteinanna. Við þurfum að eiga samskipti út á við til þess. Þess vegna styðjum við í Samfylkingunni heils hugar að við setjum okkur græna utanríkisstefnu til að knýja fram jákvæðar breytingar á alþjóðavettvangi. Það hefur sýnt sig í gegnum alþjóðastarf að á okkur er hlustað og við höfum áhrif þrátt fyrir smæðina, eins og kom ágætlega fram í ræðunni áðan. Hamfarahlýnun er einfaldlega mál af þeirri stærðargráðu að okkur ber skylda til að beita okkur eftir því sem við getum.

Herra forseti. Það er ekki langt síðan fólk trúði því að hreint loft, ómengað vatn, gróskumiklir skógar væru allt verðug málefni til að berjast fyrir en ekki mál sem vörðuðu þjóðaröryggi. Í dag eru umhverfismál hins vegar orðin lykilþáttur í utanríkisstefnu flestra vestrænna þjóða. Umhverfismálin snerta nefnilega beint og óbeint mjög fjölbreytt samfélagsleg málefni. Þar má nefna öryggismál, ófrið, efnahagsmál, ójöfnuð, mannréttindi og jafnrétti kynjanna. Dönsk stjórnvöld eru meðal þeirra sem gert hafa sér grein fyrir þessu og hafa sett sér græna utanríkisstefnu, eins og nefnt var í ræðunni á undan. Það var hreinlega tekin ákvörðun um það að Danmörk yrði svokallað grænt stórveldi. Samhliða stórum skrefum í baráttunni gegn hamfarahlýnun heima fyrir var ákveðið að dönskum loftslagsáherslum og -lausnum yrði miðlað um allan heim þannig að loftslagsbreytingar og sjálfbærni yrðu í forgrunni danskrar utanríkisstefnu. Nýrri loftslagsdeild var komið á fót í ráðuneytinu og ný sjálfbærnistefna lögð fram. Fimmtán sendiherrar Danmerkur voru gerðir að einhvers konar grænum sendiboðum til að boða grænar lausnir og stefnu danskra yfirvalda og hvetja til grænna umskipta í heiminum öllum. Vissulega láta íslensk stjórnvöld sig loftslagsmál varða og minnast gjarnan á þau í ræðum hér innan lands, og erlendis líka, þó það nú væri. En það er einfaldlega ekki nóg að skreyta sig með fögrum orðum á tyllidögum. Aðgerðir þurfa að fylgja. Við sjáum þess einfaldlega ekki merki í stjórnsýslunni, í fjárlögum, í fjármálaáætlun, að loftslagsmálin séu tekin nógu föstum tökum.

Herra forseti. Aðgerðirnar sex sem tillagan gerir ráð fyrir eru raunhæfar, en að sama skapi róttækar og nauðsynlegar. Þær byggjast að ýmsu leyti á áherslum Norðurlandanna á málaflokkinn. Það er auðvitað gott að líta til góðra fordæma og því ætti ekki að vefjast fyrir okkur að feta í þessi fótspor. Ísland eitt og sér mun í sjálfu sér ekki áorka miklu, en ef við vinnum náið saman með öðrum ríkjum og stefnum að sömu markmiðum getum við haft mjög mikil áhrif. Þess vegna eigum við að ráðast í þetta verkefni og vinna náið með norrænu ríkjunum, sem og Evrópusambandinu, að loftslagsmálum. Það getur haft margföldunaráhrif og skipt sköpum fyrir komandi kynslóðir, sem við þurfum auðvitað að huga að. Ég vona þess vegna að þetta góða mál fái málefnalega umfjöllun hér á þingi.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að taka nauðsynlegt frumkvæðið í þessu afar mikilvæga máli.