152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[17:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál, eins lítið og það lítur út fyrir að vera á blaði, einungis þrjár línur — ákveðin málsgrein orðist svo og að lögin taki þegar gildi — er mjög einkennandi fyrir það ástand sem við höfum gengið í gegnum undanfarin tvö ár. Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig á einmitt ekki að bregðast við óvissuástandi. Við höfum talað um það ítrekað í þessum ræðustól: Það er svo mikið óvissuástand, við verðum bara að fórna öllum réttindum okkar og leggja þau í hendur ríkisstjórnarinnar og hún getur bara gert það sem hún vill.

En það er einmitt hlutverk ríkisstjórnar og stjórnvalda að eyða óvissu. Þegar það er óvissuástand taka stjórnvöld þannig ákvarðanir að óvissan minnkar eða hverfur. Þetta mál er dæmi um það hvernig við erum aftur að reyna að bregðast við á síðustu stundu við ástandi sem á að vera miklu aðgengilegra, gagnsærra og öruggara. Við eigum ekki að fá svona mál á síðustu stundu, það býr til aukaóvissu en minnkar hana ekki. Við eigum að krefja stjórnvöld um fyrirsjáanleika. Það er algerlega nauðsynlegt af því að stjórnvöld fara með þannig vald, fara með þannig ábyrgð að þau eiga að stuðla að fyrirsjáanleika og eyða óvissu. Það væri t.d. stöðugleiki í einhvers konar skilningi. Tímabundin úrræði á að boða með hæfilegum fyrirvara þannig að hægt sé að ræða þau í þaula, eins mikið og hægt er, alla vega miðað við óvissuástand, að sjálfsögðu. Það er aðallega af því að þingmenn eru ekki sérfræðingar, þingmenn eru bara fólk sem valið er í lýðræðislegu ferli. Það getur verið alls konar fólk og er ekkert endilega sérfræðingar í krísustjórnun eða faraldursfræðum eða hvernig á að fara með hlutina rétt og upp á punkt. Til þess leitum við umsagna og sjónarmiða sérfræðinga og almennings. Það er hlutverk þingmanna að taka afstöðu samkvæmt eigin sannfæringu, í rauninni bara samvisku, um hvað sé best að gera. En til þess að við getum gert það þá þurfum við að fá umsagnir. Það er eins augljóst og hægt er að hafa það. Þess vegna er tímaskortur alltaf slæmur.

Það er enn þá skrýtnara varðandi þetta frumvarp, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á, hvernig tímalína þess hefur verið. Ég kem úr hugbúnaðargeiranum og hef verið í tölvunarfræði og gæðaeftirliti og þess háttar og þar glímum við við síbreytileg vandamál. Það hefur þróast ákveðin aðferðafræði til þess að glíma við síbreytileg vandamál. Fólk lærði það að þegar það tók við verki sem það þurfti að skila af sér, t.d. hugbúnaði sem leysti ákveðin vandamál, ágætisverkefni, t.d. búa til reiknivél til að afgreiða ákveðið mál og þá er það bara búið, að þegar vélin var tilbúin til þess að afgreiða vandann og komin í notkun þá fattaði fólk allt í einu að þetta var ekki alveg nógu gott. Vandinn er ekki alveg svona. Það þurfti að gera eitthvað aðeins meira, aðeins öðruvísi. Það er af því að skilningur þeirra sem taka við vandamáli er ekki endilega sami skilningur og þeirra sem verða fyrir vandanum. Þetta er kallað fossalíkan í hugbúnaðargeiranum þar sem er bara vandamál og lausn. Aðferðafræðin sem hefur verið þróuð er að þegar tekið er við vandamáli þá reynum við að skilja það.

Sem hugbúnaðarforritari hef ég lítinn skilning t.d. á heilbrigðismálum og hvernig á að útfæra þau. Þegar til mín kemur læknir og segir: Ég þarf hugbúnað sem gerir hitt og þetta, þá skil ég ekki forsendur þess vandamáls. Ég verð að setja mig í spor hans og ég geri það í skrefum, líka í bókstaflegri merkingu meira að segja, með því að fylgjast með því hvernig vinnulagið er og með því að safna sögum af því hvað gerist. Þegar einhver kemur til að fá þjónustu hjá þér, lýstu fyrir mér hvað gerist. Ég fer til þeirra sem leita eftir þjónustunni og spyr: Hvað er það sem þú ert að leita að, hvaða hjálp vantar þig, hvernig væri hentugt að fá hana? Og svo þegar búið er að hugsa út í mögulegar lausnir þá kemur maður aftur með það til baka til læknisins og til þeirra sem vantar læknisþjónustuna og spyr: Gæti þetta virkað? Væri sniðugt að gera þetta? Þá er það bara mjög gróflega undirbúið, jafnvel bara rissaðar upp smáskissur, gróf hugmynd að því hvernig þetta virkar. Fólk prófar það jafnvel bara á blaði: Já, ég myndi ýta á takka hér og það myndi fara með mig hingað og það lítur svona út, já, þetta er þægilegt eða nei, þetta er óþægilegt, ég myndi vilja hafa það svona eða hinsegin. Þá er hægt að aðlagast vandanum og það er lykilatriði. Í staðinn fyrir að taka við vandamáli og skila lausn þá tökum við við vandamáli og vinnum að lausninni í skrefum. Við skiljum vandann betur og skilum að lokum lausn þar sem er búið að spyrja notendur — lækna, þingmenn eða hvern sem er: Er þetta lausn sem fer í raun og veru í áttina að því að leysa vandann? Og þegar búið er að gera þetta í mörgum skrefum þá áttum við okkur kannski á því í lokin að það sem fólk vildi var í raun og veru ekki það sem það bað um til að byrja með.

En það er einmitt það sem við erum búin að vera að ganga í gegnum í faraldrinum. Fyrstu fjárlögin voru svona. Það er allt í volli og við verðum bara að henda þessu hérna inn og þið eigið bara að samþykkja allt. Hér koma risabrúarlán og alls konar neyðaraðstoð og við höfum ekki tíma til að útskýra fyrir ykkur hvernig þetta á í raun og veru að virka. Það er rosalega óheppilegt. Hvernig eigum við, sem erum ekki endilega sérfræðingar í öllum þessum málum sem við verðum að ákveða, vinnumarkaðsaðgerðir fram og til baka, að vita hvort það sem lagt er til skili þeim árangri sem til er ætlast? Við höfum ekki hugmynd um það nema við fáum tíma og ráðrúm til að leita til þeirra sérfræðinga sem skilja málið.

Enn og aftur erum við að ganga í þessa gildru. Eins einfalt og þetta frumvarp er þá þurfti það ekki að koma svona seint til þingsins. Við ættum að vera komin með reynslu af því að sjá hvernig þetta virkar og þá ætti að vera rosalega auðvelt að fá nánari lýsingu á því hvort það séu einhverjir agnúar, hvort það þurfi að aðlaga ákvæðin eitthvað aðeins betur. En nei, þetta er bara breytt gildistímaákvæði; fínt eins og það er, við ætlum bara að breyta tímanum. En ég hef ekki hugmynd um hvort það sé í rauninni eitthvað í ákvæðunum sem mætti rúnna betur af eða ekki, hvort það að breyta bara dagsetningunni sé nóg. Til þess þurfum við umsagnir. Til þess þurfum við tíma. Að hægt sé að leita í samráðsgáttina, eins og var bent á í fyrri ræðu. Enn og aftur erum við að sjá slæleg vinnubrögð, skort á skilningi á því að það eru ekki stjórnvöld sem ráða. Þau eru í þjónustuhlutverki og þau þurfa að virða það þjónustuhlutverk. En þau fara hins vegar með það vald, sem þeim er vissulega veitt, á rangan hátt, ekki með því að hugsa um valdshlutverk sitt sem þjónustu heldur bara: Ég ræð. Það er bara geðþótti minn sem segir að þetta skuli vera svona en ekki hinsegin. Af því bara.