152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:19]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta frumvarp hæstv. vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vera þarft í ljósi nýlegrar sölu á grunnkerfi fjarskipta landsins og hugsanlegum áhrifum hennar á þjóðaröryggi, enda gefur það ráðherra ríkari heimildir til að grípa inn í samninga þegar um þjóðaröryggi er að ræða. Ég ætla því að nota þetta tækifæri til að ræða aðeins um sölu Mílu og eignaraðild. Málefni sem snerta sölu Mílu eru miklu alvarlegri og liggja dýpra en kannski virðist við fyrstu sýn.

Skoðum fyrst eigendur Mílu. Stoðir eiga 16% í Símanum en Stoðir eru gamla FL Group sem mörg okkar muna eftir frá árunum fyrir hrun. Lífeyrissjóðirnir eiga svo 62% en þó að lífeyrissjóðirnir séu meirihlutaeigandi þá virðast þeir einfaldlega spila með áhættufjárfestunum og láta þá ráða för. Það eitt og sér er rannsóknarefni út af fyrir sig því það er almennt vitað að Stoðir hafa stjórnað þessari vegferð og það að selja innviði Símans vekur óneitanlega upp spurningar um hvernig gamalkunnar viðskiptablokkir eru enn og aftur að gera sig gildandi í íslensku viðskiptalífi og tæma enn eitt félagið af verðmætum innviðum. Þetta er það sama og gerðist fyrir hrunið 2008.

Í þessu samhengi er líka athyglisvert að skoða verðlagningu grunnnets fjarskipta á Íslandi. Fyrir það telst hæfilegt verð 78 milljarða kr. Hvort það sé rétt verð hef ég engar forsendur til að meta en þegar ég lít til þess að arðgreiðslur Arion banka á þessu ári eru 88 milljarðar þá finnst mér myndin sem blasir við vera svolítið mikið skökk, ekki síst þegar einnig er litið til þess að Stoðir, þeir hinir sömu og eru að selja Mílu, eru líka stórir fjárfestar í Arion banka. Annaðhvort erum við að selja grunnnet fjarskipta allt of ódýrt eða hagnaður og arðgreiðslur banka eru óeðlilega háar nema hvort tveggja sé um að ræða, annað of lágt og hitt of hátt. Og ef við skoðum hvað það er sem er í rauninni að gerast á íslenskum fjarskiptamarkaði blasa nokkrar staðreyndir við.

Förum aðeins yfir það sem við vitum. Við vitum að Síminn er að selja mikilvæga innviði Mílu á 78 milljarða og fjárfestingarsjóðurinn Ardian er kaupandi, en við vitum ekki hverjir eru eigendur Ardian. Þá er nær ómögulegt að finna. Við vitum þannig ekkert hverjir eru í raun og veru að fara að eignast grunnkerfi fjarskipta á landinu. Við vitum einnig að samhliða sölunni er gerður 20 ára leigusamningur milli Mílu og Símans. Spurningin sem vaknar er: Til hvers er verið að selja eitthvað til þess eins að leigja það til baka? Þetta var gert í stórum stíl fyrir bankahrunið 2008 og setti eitt sveitarfélag á hausinn og a.m.k. eitt annað rambaði um tíma á barmi gjaldþrots vegna nákvæmlega svona samninga. Við vitum heldur ekki hvaða áhrif þessi sala mun hafa til langframa annars vegar á stöðu Símans og hins vegar á neytendur og verð til þeirra. Enginn veit heldur hvernig rekstrarhæfi Símans verður eftir söluna. Við vitum þó að 80% af tekjum Mílu komu frá Símanum og það er ljóst að tekjur Mílu duga hvergi nærri til að greiða þessa 78 milljarða fjárfestingu Ardian. Það er því nokkuð augljóst að viðskiptavinir Símans, almenningur, munu borga þessa fjárfestingu upp í topp og rúmlega það með hærra verði fyrir þjónustuna.

Það er líka nauðsynlegt að skoða þessa sölu í samhengi við annað sem gerst hefur á þessum markaði, eins og t.d. að Sýn og Nova seldu nýverið mikilvæga innviði er tengjast 5G-uppbyggingu til Digital Colony. Í frétt Viðskiptablaðsins frá 11. febrúar 2021 segir, með leyfi forseta:

„Digital Colony er langt komið með að ljúka kaupum á svokölluðum óvirkum fjarskiptainnviðum af Sýn og Nova fyrir um 13 milljarða króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þá vinnur félagið að því að fjármagna kaupin að hluta með útgáfu skuldabréfs í krónum upp á 8 til 9 milljarða króna. Fjárfesting í skuldabréfunum hefur verið kynnt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum fjárfestum á síðustu vikum af fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur umsjón með fjármögnuninni hér á landi. Sýn og Nova munu leigja innviðina aftur af kaupandanum. Sýn sagði fyrst frá viðræðunum með tilkynningu í október þar sem fram kom að um 6 milljarða króna söluhagnaður myndist við söluna en hefur ekki gefið upp hver kaupandinn sé.

Gangi kaupin eftir má vænta þess að innviðirnir verði endanlega í eigu sjóðs í stýringu hjá Digital Colony, sem sérhæfir sig í stýringu fjárfestinga á ýmsum stafrænum innviðum á borð við gagnaverum, fjarskiptamöstrum, ljósleiðarakerfum og öðrum sambærilegum eignum.“

Samkvæmt annarri frétt Viðskiptablaðsins frá 18. maí, stefnir Sýn á frekari sölu fjarskiptainnviða til ónefndra aðila. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar um sé að ræða þrjá innlenda og erlenda aðila. Viðræðurnar snúist um sölu svokallaðra fastlínuinnviða á borð við ljósleiðara sem eru á um 800 stöðum víða um land.“

Þá kemur stóra spurningin: Tengjast þessir fjárfestingarsjóðir sem eru á góðri leið með að eignast fjarskiptainnviði Íslands með einhverjum hætti? Svarið er já. Digital Colony og Ardian hafa unnið náið saman í kaupum á fjarskiptainnviðum sem teygja sig til Norður-Ameríku og Evrópu. Digital Colony og Ardian tengjast einnig í kringum kaupin á Zayo Group LLC. Einnig má fletta upp á fleiri áhugaverðum tengslum og viðskiptasamböndum þessara sjóða.

Nú hafa báðir þessir sjóðir gert samninga um kaup á mikilvægum fjarskiptainnviðum á Íslandi. Digital Colony við Sýn og Nova, sem inniheldur 20 ára leigusamning um afnota á sömu innviðum og seldir voru, og Ardian við Símann, sem einnig inniheldur 20 ára leigusamning um afnot af sömu innviðum og seldir voru. Eftir standa stórar spurningar. Hvað stöðu eru íslenskir neytendur í þegar tengdir aðilar hafa með kaupum á mikilvægum fjarskiptainnviðum Íslands tryggt 20 ára samninga við alla fjarskiptarisa Íslands? Hver verður samkeppnin? Og trúir því einhver að sjóðir sem starfa náið saman á öðrum mörkuðum fari að keppa á litla Íslandi? Eru nafntogaðar viðskiptablokkir sem ráða í skjóli minnihlutaeignar á móti lífeyrissjóðunum að komast yfir gríðarlega fjármuni með innviðasölu þessara fyrirtækja og fórna í leiðinni langtímahagsmunum heillar þjóðar fyrir skammtímagróða? Þetta ætti að vera landsmönnum kunnuglegt viðskiptalíkan frá því fyrir bankahrunið. Hvernig munu þessi fyrirtæki standa eftir viðskiptin þegar þau hafa verið tæmd að innan og læst inni í 20 ára viðskiptasambandi við fjárfestingarsjóði sem enginn veit hver raunverulega á?

Eftir stendur að það er ekkert eðlilegt við að jafn mikilvægar grunnstoðir og fjarskiptakerfið okkar sé í höndum fjárfesta að möndla með og hagnast á án tillits til þeirra langvarandi áhrifa sem aðgerðir þeirra geta haft á landsmenn. Við hljótum að biðla til stjórnvalda, Samkeppniseftirlitsins, lífeyrissjóðanna og eftirlitsaðila að hefja opinbera rannsókn á þessum viðskiptum og stoppa þau af á meðan hún stendur yfir.

Strax í upphafi þingsins lagði ég fram beiðni um sérstaka umræðu um málefni sölu Mílu. Þar sem óvíst er að hún fari fram úr þessu ætla ég, með leyfi forseta, að fara yfir þær spurningar sem þar eru. Þeim átti að beina til forsætisráðherra þar sem hún situr í þjóðaröryggisráði og hér er svo sannarlega öryggi þjóðarinnar í húfi.

Helstu spurningarnar sem ég hugðist beina til ráðherrans eru eftirfarandi:

„1. Hvenær var forsætisráðherra, ríkisstjórninni og þjóðaröryggisráði tilkynnt að sala á grunnkerfi Íslands í fjarskiptum væri í bígerð?

2. Hefur ráðherra, ríkisstjórnin eða þjóðaröryggisráð á einhvern hátt mótmælt áformum örfárra fjárfesta um sölu sem getur haft gríðarlega víðtæk og alvarleg áhrif á fjarskiptaöryggi þjóðarinnar? Gæti komið til álita að beita heimild í 12. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, til að grípa inn í?

3. Samkeppniseftirlitið er að rannsaka tengsl Ardian og Digital Colony sem hafa starfað náið saman og eru sameiginlega að öðlast yfirburðastöðu á íslenskum fjarskiptamarkaði. Vita ríkisstjórnin og þjóðaröryggisráð hverjir standa á bak við þessi tvö fyrirtæki og hvort þetta séu að hluta eða öllu leyti sömu aðilarnir?

4. Stoðir, sem eiga 16% í Mílu, standa á bak við þessa sölu. Félagið Stoðir, áður FL Group, er Íslendingum vel kunnugt frá hruni þar sem það átti stóran þátt í skaðanum sem þjóðin varð fyrir og þessi sami hópur er einnig í þann mund að fá tugmilljarða arðgreiðslur frá Arion banka. Telja ráðherrar og ríkisstjórn eðlilegt að jafn lítill hópur og raun ber vitni geti ráðskast með þessum hætti með grunnstoðir þjóðarinnar og hefur ríkisstjórnin sett einhvern þrýsting á lífeyrissjóðina sem eiga 62% í Mílu að standa gegn sölunni í nafni þjóðarhags?

5. Þarf ekki að rannsaka hlutabréfaviðskipti, þá sérstaklega innherja og tengdra aðila, með bréf í Símanum í aðdraganda samnings um sölu á Mílu eða hefur það kannski verið gert?

6. Þetta snýst ekki bara um skammtímahagsmuni. Getur ríkisstjórnin tryggt að neytendur muni ekki þurfa að greiða hærra verð vegna sölu á Mílu?

7. Hefur ríkisstjórnin skoðað hvaða áhrif 20 ára bindandi viðskiptasamningur Símans við Mílu mun hafa á framtíðarrekstur Símans?“

Allt þetta þarf að taka með í reikninginn.

Í frumvarpinu sem hér er til umræðu stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi o.s.frv., sbr. 2. mgr.“

Síðar stendur:

„Ef brotið er gegn skilyrðum sem ráðherra hefur sett á grundvelli 5. mgr. er ráðherra heimilt að taka ákvörðun um að hlutaðeigandi erlend fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum, eftir að hafa skorað á hlutaðeigandi að bæta úr broti.“

Mér finnst því ástæða til að inna hæstv. vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eftir því hvort hún hyggist beita þessari heimild til að stöðva sölu Mílu, a.m.k. þangað til málið hefur verið skoðað, öryggi neytenda tryggt og öllum þessum spurningum svarað. Ég vona innilega að hæstv. ráðherra muni nýta sér þessar auknu heimildir því það er mikið í húfi.