152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir. Ég veit að við deilum frekar sýn í þessum málum en hitt eftir þær samræður sem við höfum átt í gegnum tíðina um þessi mál. Ég veit að hún hefur mikinn áhuga á samkeppni en líka þjóðaröryggi sem slíku.

Nú er þessi ríkisstjórn búin að sitja í fjögur ár. Það hefur ekkert gerst síðan þjóðaröryggisstefnan var samþykkt, fyrir utan að þessi mikilvæga skýrsla var lögð fram og það eru mjög mikilvægir punktar sem þar koma fram. Ég, eins og allir þingmenn Viðreisnar, greiddi atkvæði með beiðni um þá skýrslu, enda er það ekki venja hjá okkur í Viðreisn að greiða atkvæði gegn skýrslubeiðni þó að aðrir flokkar kunna að hafa tekið það upp. En við töldum líka, þrátt fyrir formið, að það væri mikilvægt að draga einmitt fram þessa þætti. Í skýrslunni koma fram mjög sterk og mikilvæg lykilsjónarmið til að tryggja þjóðaröryggi sem þarf að vinna eftir, þannig að gott og vel, guð láti gott á vita ef ríkisstjórnin ætlar núna að fara svona aðeins að haska sér í þessum efnum. En reynslan frá síðasta kjörtímabili um það sem stóð í stjórnarsáttmála um þjóðaröryggi, og núna stendur eitthvað um þjóðaröryggi í stjórnarsáttmála, það eigi að halda eitthvað áfram, er kannski ekki endilega góð. Það er svolítið trúverðugleikaspursmál hjá ríkisstjórninni, hvort hún hafi raunverulega vilja til að fylgja því eftir sem er í stjórnarsáttmálanum.

Nei, ég sit ekki í þjóðaröryggisráði. Það er bara einn fulltrúi frá stjórnarandstöðunni og ég er ekki sá fulltrúi. Ég vil líka draga sérstaklega fram hvað aðrar þjóðir eru að gera, hvort sem það eru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, ríki Evrópusambandsins. Það eru allir að kortleggja hjá sér þetta umhverfi og eru nú þegar búnir að setja löggjöf um þjóðaröryggi, þá hagsmuni sem um ræðir, kortleggja hvaða áhrif þetta hefur varðandi önnur lönd en manns eigin sem hugsanlega geta komið að því að stýra þeim mikilvægum innviðum sem um ræðir.