152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dúndurspurning og ég held að það sé besta að segja: Þetta er samspil margra þátta. Já, það er kannski þetta leiðinlega svar en það er það. Á hinn bóginn liggur alveg ljóst fyrir að það gengur ekki að við þurfum óveður, við þurfum náttúruhamfarir til að framkvæmdarvaldið vakni, til að ráðuneyti og stofnanir vakni til þess að sinna þörfum fólks og fyrirtækja. Fyrir utan það sem hv. þingmaður þekkir náttúrlega miklu betur, t.d. bara ákall Eyjafjarðarsvæðisins um að geta byggt upp öflugt atvinnulíf, fullt af fyrirtækjum sem vilja eðlilega fara norður en geta það ekki af því að þau fá ekki raforku. Það er eitthvað að þegar svoleiðis er. Það eru ótrúleg vaxtarsvæði á Vestfjörðum, til uppbyggingar atvinnulífs, fjölbreytni í atvinnulífi og þau geta það ekki af því að það er bara lokað, segir kerfið. Umgjörðin, sem m.a. við í þessum sal höfum hefur samþykkt, veitir ekki svigrúmið en samt er raforkan til staðar. Raforkan er til staðar þegar kemur að þessu.

Við þurfum mjög líklega að virkja til skemmri og lengri tíma til að byggja upp alla innviðina, fara í orkuskiptin og fara í það að byggja undir enn fjölbreyttara atvinnulíf um land allt. En við þurfum einfaldlega, og það mun ekki standa á okkur í Viðreisn þegar kemur að því, við áttum okkur algjörlega á því að þetta fer saman: öryggi fyrir heimilin og fjölbreytt atvinnulíf. Þá er lykilatriði að byggja upp raforkukerfið þannig að sveitarfélög hafi raunverulegt sjálfdæmi um hvernig atvinnulíf þau vilja byggja upp á sínu svæði en þurfi ekki að vera háð því hvort veitandinn, flutningskerfið, geti sinnt þeim eða ekki. Það er ekki boðlegt árið 2021.