152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég var kannski helst að kalla eftir í þessu máli er að við höfum verið að vinna eftir tíu ára kerfisáætlun og þriggja ára framkvæmdaáætlun, það hefur verið regluverkið sem hefur verið unnið eftir síðustu ár og við sjáum það í Eyjafirði. Þetta eru orðin 15–20 ár þar sem lítið hefur verið hægt að gera, lítið hægt að gera í þessum framkvæmdum, þeim seinkar bara og það eru kærur endalaust og það hefur ekkert gengið. Þetta þekkjum við kannski. Ég er með á máli um Suðurnesjalínu 2, allan vandræðaganginn í kringum það. Það er alveg ótrúlegt hvernig þetta allt saman er. Ég er eiginlega að kalla eftir skoðun þingmanns á þessu, kærufrestirnir hafi verið þannig að það er einhver hringlandaháttur sem heldur endalaust áfram. Það er búið að marka og það er búið setja peninga í framkvæmdir sem ekki er hægt að nýta árum saman eins og hjá Landsneti varðandi uppbyggingu á kerfinu en tókst loksins. Það var byrjað með Kröflulínu fyrir tveimur, þremur árum og hún var spennusett í lok ágúst. Framkvæmdir við Hólasandslínu eiga að klárast næsta sumar og hún verður spennusett. Það er búið að tengja Akureyri við Fljótsdalsstöð og Kröflusvæðið með sterkari hætti. En það er svo mikið eftir. Þegar við erum að tala um græna framtíð og loftslagsverkefnin, þá gerist náttúrlega ekkert í þeim nema þetta sé allt tengt saman með einhverjum vitrænum hætti.

Ég er eiginlega að kalla eftir því hjá hv. þingmanni: Eigum við að setja bara lög á þetta, eins og verið er að tala um Suðurnesjalínu 2? Hvað eigum við að ganga langt í því þegar við bíðum í 15–20 ár eftir því að fá orkuna? Það er raunverulega spurningin því að hv. þingmaður hefur verið að gagnrýna að það hafi gengið hægt en við erum komin þangað. Það er búið að kalla eftir henni í 15, 20 ár og endalaus hringlandi. Það hafa orðið breytingar og þetta hefur aðeins skánað núna og Landsnet tók upp nýtt verklag og hefur aðeins tekið öðruvísi á málum, en hversu langt eigum við að ganga? Eigum við að setja lög, sem ég hefði alveg verið til í í mörgum verkefnum, þegar maður hefur séð fram á þennan (Forseti hringir.) dapurleika sem hefur tengst þessum málum undanfarin 10, 15, 20 ár? Ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) myndi svara þessari einföldu spurningu.