152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil að mörgu leyti taka undir það sem hér hefur verið sagt — ekkert að mörgu leyti heldur bara að öllu leyti — um leið og ég nefni að það er svolítið einkennandi að eingöngu einn stjórnarflokkur hefur tekið þátt í þessari umræðu og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn, sem í raun ber ábyrgð á undirbúningi þessa máls, lætur ekki sjá sig. Formaður þjóðaröryggisráðs og forsætisráðherra — enginn úr hennar flokki, Vinstri grænum, hefur sýnt sig í þessari umræðu. Það er svo sannarlega hægt að segja að þessi umræða skipti gríðarlega miklu máli út frá þjóðaröryggi. Það hafa flestir þingmenn rætt hér, að loksins fáum við tækifæri til að ræða nákvæmlega þessi mál, eiga hér samtal um þessa grundvallarinnviði, hvað þetta þýðir fyrir almannahag, hvað þetta þýðir fyrir þjóðaröryggi, það skiptir máli. En Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn skila auðu í þessu máli í dag.