152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og mér finnst þetta með stafrænt sjálfstæði mjög gott. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi áhyggjur af því að stafræn framtíð geti orðið dýrari með því að fjárfestingarsjóðir fjárfesti í þessum innviðum. Nei, ég get ekki sagt að ég hafi verulegar áhyggjur af því en það er auðvitað einn af þeim þáttum sem þarf að horfa til varðandi slíkt regluverk. Ég lít þannig á að ljósleiðarainnviðir séu orðnir bara jafn mikilvægir og aðrar veitur og við höfum horft fram á mjög mikla þróun í ljósleiðaraþjónustu t.d. við dreifðari byggðir vegna þess að við fórum í átaksverkefni og lögðum fé í það, ríkisfé, að tryggja tengingu dreifðari byggða við ljósleiðaranetið, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt byggðamál og ýtir undir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í sveitum landsins. Það hefur reyndar þýtt það að sum þéttari svæði úti um landið hafa ekki notið þjónustu ljósleiðara. Það er nokkuð sem ég hef gjarnan heyrt kvartað yfir þegar maður ferðast um landið, að það þurfi að fara upp í sveit til ömmu og afa til að hlaða niður Netflix-myndunum, sem getur reyndar verið voðalega jákvætt, getur alla vega haft jákvæðar birtingarmyndir. En ég hygg að það sé einn af þessum hlutum, að það er dýrt að leggja þessa innviði um landið okkar vegna þess að byggðin er mjög dreifð og langt á milli staða. Ég held að þetta skipti svo ofboðslega miklu máli að það geti jafnvel verið kostur, ég ætla ekki að fullyrða það, að öflugir aðilar, sem hafa nægt fjármagn og aðgang að þekkingu og tækni, komi og hjálpi okkur jafnvel að gera hlutina enn hraðar og líka að tryggja viðhald innviða. Það held ég að muni skipta miklu máli til framtíðar því að okkur Íslendingum hættir stundum til að vaða áfram í verkefnum, sem skipta mjög miklu máli, en svo þarf líka að halda þeim við. Raforkukerfi okkar er til að mynda mjög gott dæmi um þetta.