155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[18:44]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vona að hann átti sig á því að þegar við tölum um stefnu erum við í stóru línunum en ekki einstaka atriðum í fiskveiðistjórnarkerfi landsins eða öðru sem við ætlum að gera. Það kemur fram í aðgerðaáætlun að einhverju leyti og svo er það auðvitað í þeim þingmálum sem ég hef boðað og ég fór m.a. yfir með hv. þingmanni hér í dag. Svo er líka mikilvægt að halda því til haga að í ríkisstjórn er það aldrei stefna eins flokks sem nær alfarið fram að ganga. Það væri þá ekki nema það væri einn flokkur í ríkisstjórn. Það á hv. þingmaður að vita, hann á að kunna það hvernig hlutirnir virka í lýðræðissamfélagi. En bara til að halda því til haga þá erum við hér að fjalla um stóru línurnar, það sem skiptir raunverulega máli. Ég veit að þingmanninum þykir líka sjálfum mikið við liggja að vernda vistkerfi hafsins og bæta þekkingu og annað slíkt. Svo mikið veit ég að hann kann inn á slíka hluti og finnst það skipta máli. Þannig að hér erum við fyrst og fremst að fjalla um stóru línurnar. Aðgerðaáætlunin sem þessu fylgir fór í samráð, eins og ég sagði í minni framsögu, í nóvember og hún verður lögð fram að samþykktri þessari stefnu því það gerist jú í þeirri röð, þannig að ég vona að þingmaðurinn virði það við mig að ég er ekki hér að mæla fyrir einstaka atriðum þegar kemur að sjávarútvegsmálum heldur er þetta breiða heildarsýnin sem verður fylgt eftir með aðgerðaáætlun, frumvörpum og þingsályktunartillögum í framhaldinu.